störf þingsins.
Hæstv. forseti. Öðru hvoru komum við sem samfélag á stað sem kallar á sársaukafull uppgjör. Í dag á það við um spilakassarekstur opinberra aðila, sem hafa um árabil fjármagnað starfsemi sína með því að reka spilakassa af margvíslegum gerðum þar sem fólk lætur glepjast og spilar frá sér aleiguna og eyðileggur þannig líf sitt og sinna nánustu. Þetta er fíknisjúkdómur af verstu gerð og við verðum að horfast í augu við það. Þetta kallar á aðgerðir strax. Það er því enginn annar kostur fyrir þá aðila sem hafa haldið úti rekstri spilakassa en að hætta að fjármagna starfsemi sína með þessum hætti og skiptir engu þótt það hafi mikið rask í för með sér fyrir þá. Þessu verður að hætta strax.
Ég er stoltur og ánægður með mín gömlu samtök, SÁÁ, að þau séu nú búin að sjá villu síns vegar og hafi ákveðið að hætta allri spilakassastarfsemi. En einhverra hluta vegna eru enn aðilar í þessu samfélagi sem eiga eftir að gera upp hug sinn. Þar á ég við mikilvægar stoðir í þjóðfélagi okkar, eins og Háskóla Íslands, Rauða krossinn og Landsbjörgu. Það er mjög erfitt að þurfa að standa hér og minna þessa aðila á að gera skyldu sína við veikt fólk. Þessu verður að hætta strax. Ég þekki það af eigin raun að það kostar átak og fórnir að takast á við veikleika sína, en maður verður að gera það. Það er ekki siðferðilega réttlætanlegt að stofnanir eins og Rauða krossinn, Háskóli Íslands og Landsbjörg skuli fjármagna sig á eymd annarra. Þessu verður að hætta strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)