151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:08]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki lengi talað í hálftíma en þó merkilegt margt sem þar er sagt. Sjókvíaeldi er atvinnugrein sem er komin til að vera hér á landi. Fiskeldi var stundað í einhverjum mæli hér við land síðustu áratugi og fylgdu því ákveðin vandamál til að byrja með. Margt kom þar til því að tækni, búnaður og þekking voru ekki á því stigi sem er í dag. Ekki var heldur til lagalegur grunnur eða eftirlit af hálfu hins opinbera. Í dag er staðan önnur. Þegar er farið að gæta áhrifa frá fiskeldi á samfélög þar sem það er stundað. Fjölgun íbúa ber vott um meiri væntingar um fjölbreytt störf sem skipta okkur öllu máli. Nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi.

Þessi atvinnugrein hefur farið hratt vaxandi á undanförnum áratug. Við megum eiga von á því að hún skili okkur tugmilljónakróna verðmætum í þjóðarbúið og þess vegna þurfa innviðir að vera til staðar til að tryggja viðhald og vöxt og eins til að tryggja sem mestan ávinning. Það þarf að huga að uppbyggingu innviða í þeim byggðarlögum sem byggja á fiskeldi svo að atvinnugreinin geti eflst enn frekar. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að grunnnet samgangna, t.d. á Vestfjörðum, verði fært til nútímans innan fimm ára en við eigum ekki stoppa þar heldur huga enn frekar að viðhaldi og endurgerð vega á milli þéttbýlisstaða. Þannig tryggjum við leiðslurnar sem veita aukið vítamín í efnahagslífið.

Virðulegi forseti. Þá þarf að huga að fara yfir laga- og reglugerðarumhverfi sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað og skýra heimildir til gjaldtöku með það að markmiði að tryggt sé að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sem sveitarfélögin þurfa að standa undir til að þjónusta eldið. Ég tel að það fyrirkomulag sem komið var á nýlega með fiskeldissjóði fyrir sveitarfélög sé ekki nægilega skilvirkt. Horfa þarf til þess að samræma alla gjaldtöku af eldinu og skipta tekjum bróðurlega á milli ríkis og sveitarfélaga. Þannig náum við hámarksábata fyrir nærsvæðissamfélög og þjóðina sjálfa.