151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:12]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mér þykir áhugavert að skoða ólíkt gengi meiri hlutans í ríkisstjórnarsamstarfinu og meiri hlutans í Reykjavík. Á þessu kjörtímabili hafa flokkarnir sem mynda meiri hluta á Alþingi tapað verulegu fylgi, en meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn hafa aukið fylgi sitt umtalsvert. Það er áhugavert að kafa ofan í þetta samhliða því að skoða hvað hefur einkennt vinnubrögð hvors meiri hluta um sig. Þorsteinn Pálsson gerir það í áhugaverðri grein í Fréttablaðinu á dögunum. Hann rifjar upp að almenningur virðist almennt sáttur við að ríkisstjórnin skuli hafa leyft sérfræðingum á sviði sóttvarna að ráða för gegn veirufaraldrinum. Að því leyti til og mögulega að ýmsu öðru leyti hefur faraldurinn þannig að hjálpað ríkisstjórninni. Þess utan hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki staðið fyrir miklum breytingum nema auðvitað niðurbrotinu á því heilbrigðiskerfi sem við höfum þekkt lengi og haft góða reynslu af. Ágreiningurinn snýst meira um allt hitt sem ríkisstjórnin hefur látið ógert en samt tapar meiri hlutinn eða stjórnarflokkarnir fylgi.

Þessu er öfugt farið í borgarstjórn. Þar hefur meiri hlutinn verið á fullu við að hrinda í framkvæmd nýrri og metnaðarfullri stefnu í skipulags- og samgöngumálum. Framkvæmdin er sannarlega ekki óumdeild og ekki án mistaka. Samt eykst fylgi meirihlutaflokkanna. Samantekið orðar Þorsteinn það um það bil svona í grein sinni: Stefna ríkisstjórnarinnar er íhaldssöm kyrrstöðustefna, ferð til framtíðar án fyrirheits. Stefna meiri hlutans í borginni er frjálslynd framfarastefna, skýr framtíðarsýn.

Herra forseti. Samkvæmt þessu er meiri eftirspurn eftir virkri, frjálslyndri framfarastefnu sem kallar á umræðu og skoðanaskipti um einstaka aðgerðir frekar en eftir íhaldssamri kyrrstöðu sem hreyfir ekki við umræðunni. En kyrrstaðan er auðvitað þægilegri fyrir ráðandi stjórnvöld og ef marka má nýleg orð forsvarsfólks ríkisstjórnarinnar þá stefna þau að því akkúrat að festa þessa kyrrstöðu í sessi eftir næstu kosningar.