störf þingsins.
Herra forseti. Í dag ætla ég að gera að umfjöllunarefni ákveðna tegund af töfrabrögðum. Það mætti kannski segja að það snúi að því sviði töfrabragðafræðanna sem kallast í almennu máli sjónhverfingar, en sjónhverfingar ganga í aðalatriðum út á að halda því sem raunverulega fer fram fjarri augum ákærandans, beina athygli áhorfendans annað meðan á sjónhverfingunni stendur. Í þessari starfsemi, þ.e. töfrabrögðum, varðar mestu að halda mönnum uppteknum við eitthvað sem engu skiptir og þegar sjónhverfingin hefur átt sér stað er allt um garð gengið.
Herra forseti. Stjórnvöld kynntu með trumbuslætti auknar opinberar framkvæmdir í upphafi árs 2019 þegar ljóst var að fjárfestingar atvinnulífsins voru að dragast stórlega saman. Í upphafi veirufaraldursins voru trommurnar aftur teknar fram og takturinn enn sleginn um auknar opinberar framkvæmdir. Áhorfandi beindi athyglinni að trumbuslættinum, enda var til þess ætlast. Og hver er raunin? Samkvæmt mati Hagstofu Íslands drógust opinberar framkvæmdir á árinu 2019 saman um tæp 11%. Á síðasta ári, 2020, drógust opinberar framkvæmdir aftur saman, nú um 9,3%. Auðvitað eru þessar staðreyndir afleitar fyrir ríkisstjórnina sem hefur þarna orðið uppvís að því að sjónhverfingin mistókst. Yfirlýsingar ráðamanna á síðustu árum um aukin útgjöld til fjárfestinga í innviðum, vegakerfinu, höfnum, flugvöllum, eru orðin tóm, blekking. Aukningin er í raun samdráttur. En verra er að þessi samdráttur hefur þau áhrif að enn meiri þörf er á innspýtingu til innviðauppbyggingar á næstu árum þegar við þurfum jafnframt að takast á við afleiðingar veirufaraldursins.
Herra forseti. Það er kominn tími til að leggja töfrabrögðin til hliðar og fara í raunverulegar aðgerðir til að skapa atvinnu.