störf þingsins.
Herra forseti. Það þarf ekki að tíunda mikilvægi norðurslóða í heimsmálunum og ríkin átta hafa náð árangri með samvinnu í Norðurskautsráðinu. Ég nefni þar samning um leit og björgun og um fiskveiðar, og svo má nefna alþjóðlegan samning Alþjóðasiglingastofnunarinnar sem heitir Polar Code, með leyfi forseta, á norðurslóðum. Það eru eins konar hegðunarreglur í sæferðum eða heimskautasjávarkóði. Þetta minnir okkur á sérvanda í norðurskautsmálum sem er varnar- og öryggismál. Þau eru ekki rædd á vettvangi Norðurskautsráðsins og þau eru ekki rædd á vettvangi þingmannaráðstefnu norðurslóða. Það er líka almenn stefna að halda lágspennu við á norðurslóðum og Ísland hefur þar sína rödd líka. Það minnir okkur á að það vantar umræður og vinnu frammi fyrir aukinni spennu sem er á norðurslóðum og auknum hernaðarumsvifum. Fram til 2014 tóku Rússar þátt í umræðuvettvangi herja norðurslóðalandanna, en eftir Krím-málið var þeim vikið þaðan.
Nú skilar Ísland formennsku í Norðurskautsráðinu til Rússlands og þetta gengur áfram, eins og menn vita. Ég tel að við eigum að leggja til upphafsskref í átt að heimskautaöryggismálakóða í anda hins kóðans. Það gerum við á þessu yfirstandandi ári, tel ég, og næstu árum þar á eftir. Þá nýtum við Hringborð norðurslóða, vaxandi samtök þingmanna fyrir friði, sem eru nýstofnuð, stofnanir eins og Open Diplomacy í Evrópu, Wilson-stofnunina í Washington, og, ekki hvað síst, samstarfsvettvang landhelgisgæsla norðurslóðaríkjanna og auðvitað Sameinuðu þjóðirnar. Kóðinn segði til um umgengnisreglur og samskiptareglur öryggis- og varnaraðila á norðurslóðum og hegðan með því markmiði að halda við lágspennu og koma í veg fyrir mistök sem geta leitt til árekstra. Við höfum hér forystuverkefni að vinna.