störf þingsins.
Herra forseti. Það hafa borist áhugaverð tíðindi af hóp sem hefur verið stofnaður sem heitir Áhugafólk um samgöngur fyrir alla. Hann hefur lagt til mun ódýrari lausn heldur en borgarlínan er og mun skilvirkari, að því að manni sýnist. Þessar áætlanir gera t.d. ekki ráð fyrir því að mjög stórir strætisvagna fari um íbúðargötur eins og borgarlínan virðist eiga að gera. Áætlun þeirra er byggð á kerfi sem er kallað BRT Lite, við snörum því yfir á þingmálið og köllum það strætó hraðferð. Þar er m.a. lagt til að sérakreinar verði styttri og verði hægra megin. Það verði bætt við mislægum gatnamótum þannig að Miklabrautin geti uppfyllt þá skyldu sem henni var ætlað í byrjun, að vera ljóslaus, þ.e. að það sé hægt að ferðast austur eða vestur um Reykjavík án þess að stoppa á ljósum á 300 metra bili eða svo. Ég held að þetta sé eitthvað, herra forseti, sem ætti að gaumgæfa verulega vegna þess að borgarlínan eins og hún er kynnt núna, á að kosta meira en 100 milljarða kr. Hún mun væntanlega draga saman bílaumferð í borginni um 4%. Með því að hún verði tekin í framkvæmd þá mun hún tefja eða leggja auknar tafir á 88–96% þeirra sem eru í umferðinni til að flýta för 4–12%.
Í þessum hópi eru margir merkir tæknifræðingar og verkfræðingar með mikla reynslu. Við hljótum því að gaumgæfa þessar tillögur og máta þær saman við það feigðarflan sem virðist vera farið út í varðandi borgarlínu í Reykjavík.