151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef 10–14 ára gamalt barn dytti niður stiga í skólanum eða yrði fyrir ofbeldi af hálfu samnemenda eða annars með þeim afleiðingum að barnið bryti bein eða yrði fyrir öðrum líkamlegum skaða þá hygg ég ekki að foreldri þess sama barns myndi ímynda sér að það þyrfti að berjast við kerfið og öll kerfin sem við höfum til að fá aðstoð fyrir barnið. Ef sama barn hins vegar lendir í áfalli eða einelti eða öðru andlegu ofbeldi þá búum við því miður í dag við þá stöðu að foreldri getur búist við því að fá nei á einum stað, bendingu um að fara eitthvað annað á öðrum eða standa frammi fyrir ógnarlöngum biðlista á þeim þriðja og standa síðan í hringavitleysu með þessi úrræði í það langan tíma að jafnvel þegar barnið er komið með sjálfsvígshugsanir er kerfið okkar samt sem áður ekki í stakk búið til þess að taka á vandanum.

Þetta er engum einum aðila að kenna. Þetta er ekki fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég hygg að þetta snúi að viðhorfi í samfélagi okkar sem endurspeglast innan stofnana þess sem við byggjum til að takast á við vandamál eins og þessi, þ.e. muninn á líkamlegu heilbrigði annars vegar og andlegu heilbrigði hins vegar. Það er sjálfsagt að við lítum á andlegt heilbrigði sem sjálfsagðan hlut af okkar daglega lífi og að kerfin okkar sé undir það búin að taka á móti fólki sem verður fyrir áföllum eða ofbeldi eða hverju sem er sem hefur neikvæð áhrif á andlega heilsu þess og getu til að starfa í samfélaginu. Við verðum að taka okkur á í þessu, virðulegi forseti. Það eru líf í húfi. Líf barna í húfi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)