151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fjalla hér um eitt mikilvægasta fræið sem við eigum hér á landi um þessar mundir, en það er Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi. Sá skóli hefur þróast í gegnum árin og skapað mikinn og góðan jarðveg fyrir þá miklu grósku sem þar hefur myndast til að nýta tækifæri framtíðarinnar sem við eigum í íslenskri náttúru og íslensku hugviti. Þar hafa atvinnulífið, nemendurnir, starfsfólkið og ekki síst fagfélögin myndað mikla samstöðu sem skapað hefur þá grósku sem ég nefndi áðan.

Það er sárt frá því að segja að þessi gróska og löngunin til þróa framtíðina, fanga þau tækifæri sem eru fyrir framan okkur í garðyrkjunni almennt, eru föst í kassa menntamálaráðuneytisins. Þau eru föst í þeim kassa að það þarf alltaf að fara eftir einhverjum fyrir fram ákveðnum reglum þar. Þetta fræ verður ekki vökvað meðan það er fast inni í þessum kassa. Núna er kannski aðalvandamálið að ekki er hægt að ákveða hvernig veita á skólunum frelsi til að nýta tækifærin. Talað hefur verið um að færa hann undir Fjölbrautaskóla Suðurlands, en þá þarf að tryggja að hann fái að gróa þar sem fagskóli fyrir allt landið þar sem allir sem vilja koma að garðyrkjunni til framtíðar geti nálgast skólann, eins og gert er í Fisktækniskólanum í Grindavík þar sem gróskan hefur fengið frelsi. Það hefur sýnt sig hvað hún hefur leitt mikið og gott af sér og skólinn vinnur þétt með atvinnulífinu. Við þurfum að tryggja að Garðyrkjuskólinn fái frelsi til að vökvast og vaxa og verða að blómi á Reykjum í Ölfusi. Þeir þurfa að fá að hafa yfirráð yfir húsnæðinu þó að Landbúnaðarháskólinn geti fengið að vera þar gestur ef á þarf að halda.