151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Í vikunni var hleypt af stað átakinu Hefjum störf, atvinnuátaki stjórnvalda í samvinnu við allmarga aðila. Átakinu er ætlað að skapa um 7.000 störf í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Áætlað er að verja til verkefnisins 4,5–5 milljarða kr. Verkefnið verður þannig brú yfir í þá viðspyrnu sem væntanlega mun skapast þegar faraldurinn lætur undan.

Átakið er þannig hannað að horft er sérstaklega til þeirra sem verið hafa lengi án atvinnu og eru við það að fullnýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök geta öll tekið þátt. Sveitarfélögin geta einmitt beitt sér í að skapa störf sem eru í meira mæli unnin af konum, til að mynda í félagsþjónustu og í skólakerfinu. Af fyrirtækjum er horft til lítilla og meðalstórra fyrirtækja upp að 70 starfsmönnum. Framlagið er mikilvægt og er meira en 500.000 kr. með hverju starfi í sex mánuði, umtalsvert meiri stuðningur en áður hefur þekkst. Þetta verkefni er þannig í raun í viðbót við þá ráðningarstyrki sem verið hafa í boði en hafa kannski ekki verið nægilega mikið notaðir. Hér er úrræði, ef það fullnýtist, fyrir u.þ.b. þriðjung þeirra sem eru atvinnulausir í landinu í dag. Þetta er því mjög metnaðarfullt verkefni og það ríður á miklu að vel takist til og að aðilar sem standa að verkefninu taki við sér. Árangur okkar í baráttunni við faraldurinn hefur gert stjórnvöldum kleift að taka ákvarðanir eins og þá sem var tekin í gær, sem mun skapa viðspyrnu fyrir mikilvæga atvinnugrein, þ.e. ferðaþjónustuna. Það skiptir því máli að þetta heppnist allt saman vel.

Nú hækkar sól á lofti og í næstu viku eru jafndægri að vori. Við getum horft með bjartsýni fram á veg. Aðgerðir stjórnvalda og samstillt átak okkar allra munu skila okkur inn í bjartari tíma.