151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í dag birtist frétt á Vísi um leghálsskimanir þar sem segir að heilbrigðisráðherra hafi tekið ákvörðun um að leita til erlendrar rannsóknarstofu eftir að afstaða Landspítalans lá fyrir um að spítalinn bæði gæti og vildi taka að sér þessar rannsóknir leghálssýna. Þetta hefur reyndar mátt ráða af ummælum og greinum lækna en það sem er nýtt í þessari frétt er að þarna segir að heilbrigðisráðuneytið hafi metið kostnaðinn hérlendis of mikinn. Í þessum sal hefur af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra verið talað um að hér hafi verið um öryggismál að ræða en fréttir dagsins greina hins vegar frá því að þetta hafi verið kostnaðarmál. Þegar ákvörðunin um að flytja rannsóknirnar út fyrir landsteinana var tekin hafði minni hluti fagráðs talað fyrir því, aðrir ekki. Mat sérfræðinga á Landspítalanum var að skimunin ætti að vera áfram hér á landi. Samtök yfirlækna á Landspítalanum segja að yfirvöld hafi hunsað álit fjölmargra fagaðila og við höfum séð allnokkrar ályktanir fagaðila þess efnis. Hafi það verið kostnaðurinn sem að endingu trompaði faglegar röksemdir lækna og sérfræðinga innan kerfisins þarf að rökstyðja það og hvernig heildarmat ráðuneytisins var þá um kostnað, öryggi og aðgengi, þetta allt vegið saman. Og hvað það gerir fyrir aðgengi að sýnum, hvað það gerir fyrir boðleiðir, hvað það gerir einmitt fyrir öryggi og gæði og fyrir upplifun kvenna af íslenskri heilbrigðisþjónustu, fyrir sérþekkingu og sérhæfð störf. Hafi þetta verið gert vegna kostnaðar þarf hæstv. heilbrigðisráðherra að geta sagt það berum orðum.

Ég lagði nýlega fram skýrslubeiðni ásamt allnokkrum öðrum þingmönnum um að óháður aðili vinni skýrslu um þetta mál með það að leiðarljósi að fá fram upplýsingar um þennan aðdraganda. Markmiðið var að með því mætti stuðla að því að konur geti treyst kerfinu og að almenningur beri traust til þessa kerfis um skimun fyrir krabbameini í leghálsi. En fréttir dagsins í dag, um að kostnaður hafi trompað aðrar röksemdir sérfræðinganna, gera því miður hið gagnstæða.