151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í byrjun þessarar viku hófst fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hann stendur í tvær vikur og þar er fjallað um fjölmörg málefni sem varða stöðu og réttindi kvenna. Meginþema fundarins er virk þátttaka kvenna á öllum sviðum, útrýming ofbeldis og valdefling allra kvenna og stúlkna. Orð aðalritara Sameinuðu þjóðanna í upphafi fundarins voru eftirminnileg. Hann sagði m.a., með leyfi forseta: „We need to move beyond fixing women and instead fix our systems.“ Þetta mætti þýða þannig: Við verðum að hætta að lagfæra konur og byrja á að lagfæra kerfin okkar.

Þetta eru mikilvæg skilaboð. Hversu oft er ekki sagt: Konur þurfa bara að vera duglegri, duglegri að mennta sig, gefa kost á sér að mæta í viðtöl, að krefjast launahækkana o.s.frv. Þá er ekki síður sagt þegar konur verða fyrir kynferðislegu eða kynbundnu ofbeldi: Konur eiga ekki að klæða sig svona eða hinsegin, konur eiga ekki að vera einar á ferð, konur eiga að passa drykkina sína, konur eiga þetta og konur eiga hitt.

Niðurstaðan er sem sagt að konur geti sjálfum sér um kennt, konur eigi að vera öðruvísi.

Þetta eru úrelt og hættuleg viðhorf sem verður að útrýma. Einbeitum okkur í staðinn að því að breyta samfélaginu þannig að konur geti óttalaust tekið fullan þátt án þess að þurfa að breyta sér. Hér höfum við öll verk að vinna við að breyta kerfum og hugsunarhætti, ekki síst við karlarnir.