störf þingsins.
Virðulegi forseti. Eftir reynslu síðasta árs held ég að við getum öll verið sammála um að fjarvinna hefur bæði kosti og galla. Það er ótrúlegt að sjá breytinguna sem hefur orðið á einu ári. Í meira en 20 ár hefur landsbyggðarfólk hvatt til þess að samfélagið nýti betur kosti tækninnar til fjarkennslu og fjarvinnu en oft mætt ótrúlegu tómlæti. Þessa dagana tala margir um tækifærin sem felast í því að nýta kostina áfram að loknu Covid og ég tek heils hugar undir mikilvægi þess. Það væri samt blekking að halda að það gerist af sjálfu sér. Einstaklingar þurfa að taka meðvitaða ákvörðun um að nýta kostina áfram þannig að haldið verði áfram að sníða gallana af, bæta tæknina og færnina við að nýta hana. Við verðum að gæta þess að regluverkið skapi ekki hindranir, eins og það gerði t.d. lengi vel í sveitarstjórnarlögum. Stjórnendur stofnana og fyrirtækja þurfa að grandskoða hvernig tækifæri fjarvinnu og fjarnáms nýtast sem best. Þá mun allt samfélagið hagnast.
Fyrr í þessari umræðu var nefnt að nú stæði yfir tilraun á Alþingi með breytt skipulag þingvikunnar. Það skipulag er vissulega ekki gallalaust en ég tel afskaplega mikilvægt að halda í kostina í því, t.d. að tryggja áfram snurðulausa þátttöku bæði þingmanna og gesta á fjarfundum nefnda og nú þegar einn dagur vikunnar er skipulagður sem fjarvinnudagur hefur það miklu fleiri kosti en ég bjóst við fyrir okkur landsbyggðarþingmenn, því að þetta skipulag hefur margþætt áhrif á möguleikana til að samhæfa ólík hlutverk starfsins.