151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:50]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir þessa yfirferð. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að opna landið, ef svo má að orði komast. Hingað til hafa komufarþegar utan Schengen þurft að hafa ríkari ástæðu til að koma hingað, þannig meint að þeir sem koma utan Schengen-svæðisins hafa þurft að vera í brýnum vinnuerindum, með vottorð upp á það, eða að hitta fjölskyldu eða eitthvað slíkt. Núna þurfa allir sem hafa vottorð að vísa því fram og þá er strax tekin ákvörðun um hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða. Þetta hafa flest ríki Evrópu gert og við höfðum þennan hátt á um stund í fyrra. Ég velti þessu fyrir mér núna þar sem yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli sagði í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Þetta gerir auðveldara að snúa þeim við sem ekki mega koma hingað … En þetta tryggir það líka að við sjáum alla farþega sem koma hingað, hverjir þeir eru og hvaðan þeir koma.“

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra af hverju þessi leið var ekki farin fyrr og þá varanlega? Að mínu viti virðist þetta gefa betri yfirsýn og aukið gagnsæi hvað varðar för yfir landamæri.