151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og ítrekað hefur komið fram hér í umræðu um sóttvarnaráðstafanir á Íslandi, hvort sem er innan lands eða á landamærum, höfum við haft þann háttinn á, og það er reyndar í samræmi við sóttvarnalög, að sóttvarnalæknir gerir tillögur við heilbrigðisráðherra um sóttvarnaráðstafanir á hverjum tíma sem byggja á þeim upplýsingum sem þá liggja fyrir. Þegar ég fæ minnisblað núna um helgina um að bólusetningarvottorð um fyrri bólusetningu skuli tekin gild, ekki bara gagnvart EES-svæðinu heldur líka utan þess svæðis, byggir sóttvarnalæknir það á rannsóknum og upplýsingum um virkni bóluefna.

Þar kemur fram, sem er mjög mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu, að sömu kröfur verða gerðar til allra vottorða, þ.e. hvort sem þau eiga uppruna sinn innan EES eða utan. Sóttvarnalæknir ákveður þær kröfur þó svo að sannarlega heyri reglugerð um för yfir landamæri undir dómsmálaráðherra, eins og fram hefur komið, og henni verði breytt þannig að almennt bann við tilefnislausum ferðum þriðja ríkis borgara nái ekki til einstaklinga sem eru með fullnægjandi vottorð af því tagi sem voru nefnd hér áður. Tillögur sóttvarnalæknis byggja eingöngu á sóttvarnasjónarmiðum og málefnalegum sjónarmiðum hvað það varðar. Það eru því forsendurnar fyrir því að ég geri þessa breytingu á reglugerðinni að þessu sinni.