151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:53]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir. Ég ætla aðeins að fá að fara yfir í hinn hluta yfirskriftar þessarar skýrslugjafar. Nú bíða allflestir hér á landi og víðar í ofvæni eftir því að fá bóluefnasprautu. Allt gengur á afturfótunum hjá Evrópusambandinu og hægt er að lesa í erlendum fjölmiðlum að Evrópusambandið sjálft, eða framkvæmdastjórn þess, hafi selt bóluefni til annarra ríkja utan sambandsins. Það er gert á sama tíma og aðildarríkjum er meinað að fara sjálfstætt í þá vegferð þrátt fyrir að hægt gangi innan sambandsins.

Enn er ekki komin fram afhendingaráætlun fyrir annan ársfjórðung og ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Þegar ákveðið var að hanga með Evrópusambandinu var þá aldrei á neinum tímapunkti athugað hvort við ættum frekar að fara sjálfstætt, sem sjálfstæð þjóð, í viðræður við bóluefnaframleiðendur? Og hitt: Var aldrei athugað hvort við gætum farið í samvinnu við Bretland sem sýnt hefur undraverðan árangur við öflun og bóluefnagjöf til þegna sinna og það í krafti sjálfstæðis síns?