151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mitt stutta svar er nei, vegna þess að við gerum kröfur um að fólk sé bólusett eða hafi annað fullnægjandi vottorð um að viðkomandi hafi áður sýkst af Covid-19 eða sé með mótefni. Við munum gera mjög miklar kröfur til þessara gagna og vottorða og sömu kröfur og við höfum áður gert, frá því í janúar, til þeirra sem eru innan EES. En það breytir því ekki að faraldurinn er enn á fullri ferð í heiminum. Og það breytir því heldur ekki að við sjáum stökkbreytt afbrigði sem eru mjög skæð og gæti verið mjög snúið að eiga við. Við sjáum nágrannaríki eins og núna síðast Noreg, sem hefur verið að herða aðgerðir af þeim sökum.

Af því að mig langar svo til að geta svarað hv. þingmanni um hvenær hvað gerist og hvenær við getum farið að lifa eðlilegu lífi, og ég held að það sé mjög mikilvægt að geta séð það fyrir sér með einhverju móti, þá er það svo að miðað við núverandi bólusetningaráætlun, með öllum þeim fyrirvörum sem þar eru, en þó að frádregnu AstraZeneca sem er í bið akkúrat núna, gerum við ráð fyrir því að 70 ára og eldri hafi verið bólusett í apríl, að þá séum við komin þangað. Það munar náttúrlega mjög miklu varðandi það að gæta að okkar viðkvæmustu hópum.

Danir hafa verið brattari en heilbrigðisyfirvöld hér í því að segja: Það er eðlilegt að segja sem svo að Danmörk nái því markmiði að bólusetja þau sem eru eldri en fimmtug um miðjan júní og þá verði ástæðulaust að halda áfram með sóttvarnaráðstafanir. Þetta hafa Danir sagt. Við höfum ekki gengið svo langt að segja þetta vegna þess að við viljum halda fleiri fyrirvörum á framsetningu okkar. En svona til umhugsunar erum við auðvitað með sambærilega afhendingaráætlun og sambærileg kaup á bóluefnum í meginatriðum.