151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég segi eins og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á undan mér að ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það hefur aldrei farið fram hjá neinum að ég hef viljað stíga verulega varlega til jarðar þegar kemur að aðgerðum á landamærum og innflutningi veirunnar. Við erum rétt komin fyrir vind og ég tel að það hafi jafnvel ekki síður verið lukkan ein sem réð því en eitthvað annað að við erum ekki að glíma við fjórðu bylgju faraldursins nú þegar.

Ég vísa hér líka í hv. þingmann og þá sem hafa innt hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því hvaða ábati sé í rauninni af því að fara í þær framkvæmdir á landamærunum sem nú er verið að boða. Um leið langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, þau hljóta að vita það, þegar talað er um meðalhóf og að við eigum að fara að ganga frjáls um eða losa hömlur innan lands hljóta þau að gera sér grein fyrir hættunni á því að hreinlega þurfi að herða þær frekar. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur bent á og flestir vita geisar faraldurinn sem aldrei fyrr. Það berast bara vægast sagt váleg tíðindi frá Óslóarsvæðinu í Noregi þar sem kemur meira að segja fram að tæplega 40% af nýsýktum einstaklingum eru börn á grunnskólaaldri.

En mig langar í kjölfarið til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hefur hún farið inn á síður sem ég hef kíkt inn á þar sem ég get keypt mér falsað bóluefnavottorð fyrir 25 dollara? Ég ætla að benda á að það vottorð lítur ekki öðruvísi út en ekta vottorð. Það væri heldur ekki gott falsað vottorð ef það liti ekki út eins og þau vottorð sem eiga að tryggja að við fáum hingað ærlega einstaklinga með ekta vottorð sem mark er á takandi þegar við ætlum að taka við vottorðum og hleypa þeim inn í landið án þess að þeir fari í sóttkví eða nokkurn skapaðan hlut. Mig langar til að fá að svar við þessu þó að það sé nú ekki mikið meira.