151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hér sé um efnislega sama frumvarp að ræða og hún lagði fram 11. apríl á síðasta ári og kom til 1. umr. en kom aldrei til 2. umr. Þá vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því hvort ríki sátt um þetta frumvarp innan ríkisstjórnarinnar og hvort hæstv. ráðherra telji að það verði að lögum á vormánuðum.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í 11. gr. frumvarpsins sem fjallar um málsmeðferð endurtekinna umsókna. Nú eru mörg dæmi þess að hælisleitendur sem beðið hafa úrlausn sinna mála hér á landi mánuðum saman, og eru á meðan á framfærslu ríkissjóðs, fái synjun. Þeir fara úr landi á kostnað ríkissjóðs en ekki líður á löngu þar til þeir koma aftur til landsins, óska aftur eftir hæli og fara aftur í margra mánaða bið eftir úrlausn sinna mála. Á meðan greiðir ríkissjóður húsnæði og framfærslu fyrir viðkomandi. Sem sagt, ferlið er endurtekið aftur og aftur með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð. Það eru dæmi þess að sami aðili hafi komið hingað fjórum sinnum og fengið sömu þjónustunnar fjórum sinnum. Er girt fyrir þennan möguleika í 11. gr. frumvarpsins?