151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég greindi frá í framsögu minni eru nokkrar breytingar á þessu frumvarpi frá því að ég lagði síðast fram frumvarp um breytingar á þessum lögum. Það á m.a. við um dvalarleyfi, kærunefnd útlendingamála, þ.e. fjölgun kæra, en líka dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna fyrir aðila sem eru komnir með vernd annars staðar. Þannig að á frumvarpinu eru gerðar nokkrar breytingar ásamt einhverjum öðrum lagfæringum. Eins er breytt aldurstakmark fyrir ungmenni og önnur ákvæði sem ég greindi frá í framsögu minni.

Er sátt um málið? Ég tel að eins og frumvarpið er núna séum við að bregðast við stöðunni í kerfinu í dag, hvernig við getum tekið betur á móti þeim hópi sem þarf alþjóðlega vernd. En þeim sem koma hingað og hafa vernd í öðru ríki hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum mánuðum og þar skerum við okkur verulega úr miðað við lönd annars staðar í Evrópu.