151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:25]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Þá langar mig að spyrja út í þann hluta frumvarpsins sem fjallar um breytingu á lögum um dvalar- og atvinnuleyfi. Það er sett upp eins og það eigi að gera fólki sem fær hér alþjóðlega vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða auðveldara að fá atvinnuleyfi en þetta hefur í raun enga þýðingu ef samþykkt verður að hamla aðgengi að því að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Breytingin virðist frekar miða að því að auðvelda menntuðum einstaklingum eða sérfræðimenntuðu starfsfólki að halda hér áfram að vinna. Auðvitað er það í takt við stefnu stjórnvalda síðustu ár að vera til í að fá hingað fólk með menntun og peninga en leiða hjá okkur einstaklinga í viðkvæmri stöðu sem hafa miklu meiri þörf á því að njóta verndar kerfisins. Það er greinilega ekki sama hvers lags innflytjandinn er. Hér er verið að stéttskipta fólki sem kýs að dvelja hér á landi. Hér er verið að leggja til að draga stórkostlega úr réttarvernd fólks í viðkvæmri stöðu og á sama tíma mylja undir það fólk sem íslensk stjórnvöld hafa metið sem viðunandi útlendinga. Hvernig réttlætir hæstv. dómsmálaráðherra þessa forgangsröðun á hópum fólks? (Forseti hringir.) Þykir hæstv. ráðherra ekkert athugavert við þetta í ljósi þess sem kemur fram í stefnu Sjálfstæðisflokksins um útlendingamál, með leyfi forseta, (Forseti hringir.) „nýta þarf mannauð, þekkingu og reynslu innflytjenda sem vilja búa og starfa hér á landi“ eða á það bara við um sérvalda útlendinga?