151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:27]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er bara hjartanlega ósammála hv. þingmanni. Ég er hjartanlega sammála þeim orðum sem hún vitnar til í landsfundarstefnu Sjálfstæðisflokksins, enda hefur það verið mín skoðun að Ísland eigi að standa fleiri útlendingum opið en einungis einstaklingum innan Evrópusambandsins til að koma hér og starfa og auðga samfélag okkar. Við erum ekki að girða fyrir atvinnuleyfi með neinum hætti í þessu frumvarpi. Atvinnuleyfin heyra almennt undir félagsmálaráðherra og ég myndi vilja sjá víðtækar breytingar þar og því hef ég oft lýst og það er mín einlæga skoðun. En í frumvarpinu erum við einungis að einfalda umsóknir þeirra sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna og við erum meira að segja opna það úrræði fyrir ákveðna aðila sem fá synjun hér vegna þess að þeir eru með vernd í öðru ríki. Þannig að hér held ég að sé frekar tækifæri til að gefa fólki atvinnuleyfi sem vill koma hingað til starfa, fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna, af ýmsum ástæðum, og einfalda þeim ferlið, að þurfa ekki sífellt að sækja aftur um atvinnuleyfi. (Forseti hringir.) Hérna er mjög skýr afstaða fyrir alla þá sem hingað leita og vilja starfa. (Forseti hringir.) En auðvitað eigum við að gera bæði og gera betur og það finnst mér við vera að gera.