151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi svar hæstv. ráðherra þannig að þetta væri vegna þess að svo margir umsækjendur enda þar og vegna þess að það er önnur löggjöf hér. Þetta svar er rangt. Eins og hefur verið bent á núna mjög lengi og margoft af stofnunum eins og Rauða krossinum, sem segja ekkert svona hluti að gamni sínu, þá getur staða fólks t.d. í Grikklandi versnað frá því að vera hælisleitandi og yfir í að fá vernd. Ástæðan er sú að Grikkland, Ítalía og Ungverjaland annaðhvort geta ekki eða vilja ekki, í tilviki Grikklands geta ekki, veitt þessu fólki það sem við myndum kalla viðunandi vernd. Það er ástæðan. Það hefur verið bent á þetta margoft og mjög lengi og það vekur furðu mína að hæstv. dómsmálaráðherra sé ekki meðvitaður um það.