151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Munurinn á þessu máli og hinu eru nokkrar breytingar sem ég fór yfir í framsögu minni. Varðandi þær athugasemdir sem komu við fyrra frumvarp þá tel ég okkur koma til móts við þær með því að fara finnsku leiðina sem felst í því að þeir sem eru komnir með alþjóðlega vernd í öðru ríki geti sótt um dvalarleyfi og fengið það á grundvelli mannúðarástæðna. Síðan er fjölgun í kærunefndinni og fleiri breytingar á frumvarpinu, dvalarréttindi o.fl., sem gerir það ólíkt því frumvarpi sem hv. þingmaður nefnir. En það er auðvitað þannig að við erum að vinna þessar breytingar á málum þar sem fólk hefur sótt um alþjóðlega vernd af því að við skerum okkur algerlega úr frá öðrum löndum. Í öðrum Evrópuríkjum eru mjög fáir sem sækja um vernd sem eru nú þegar komnir með vernd og þau ráða því betur við þann hóp fólks, og sá hópur stækkar hér, sem kemur beint hingað á flótta undan ofsóknum sem leiðir almennt til veitingar verndar, en tíminn sem fer í það er afar mikill.