151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í fyrradag voru tíu ár liðin frá því að stríð hófst í Sýrlandi. Innan Sýrlands eru 6,7 milljónir Sýrlendinga á vergangi. Á flótta utan Sýrlands eru 6,6 milljón Sýrlendingar. Því eru ríflega 13 milljón Sýrlendingar sem þurfa að vera undir verndarvæng flóttamannakerfis heimsins. Ég nefni þetta vegna þess að Sýrlandsstríðið markar vendipunkt í málefnum hælisleitenda í Evrópu. Sá vendipunktur hefur t.d. leitt til þess að fólk býr við ólíðandi aðstæður í mörgum ríkjum Evrópu sem annaðhvort ráða ekki við eða vilja ekki ráða við að taka sómasamlega á móti þessu fólki og veita því þá alþjóðlegu vernd sem það á skilið. Hér á Íslandi hefur þetta valdið því sem ráðherra vék að; töfum í kerfinu. Það er erfiðara að taka efnislega afstöðu til fleiri mála en færri. Það er kannski rétt að nefna það í þágu skilvirkni að einfaldasta skrefið til að draga úr töfum væri einfaldlega að samþykkja fleiri umsóknir. Tafirnar í kerfinu eru nefnilega vegna þess að kerfið leggur óheyrilega mikla vinnu í að finna einhverja ástæðu til að synja fólki um alþjóðlega vernd.

Lögin um útlendinga eru ný, þau voru samþykkt 2016 og tóku gildi 2017. Þau taka utan um málefni sem eldri lög gerðu ekki, m.a. vegna þess að fólkið sem setti þau lög árið 2002 sá ekki fyrir þá þróun sem átti sér stað fyrir tíu árum. Það sem gerðist nefnilega eftir Sýrlandsstríðið var að ekki bara var fólk að flýja hörmungar í heimalandinu, stríð, hungursneyð og ofbeldi og allt sem fólk flýr, heldur fór fólk líka í auknum mæli að flýja aðstæður í kerfinu þar sem því átti að vera tryggð vernd. Hér hafa Ungverjaland, Grikkland og Ítalía verið nefnd. Í öllum þeim löndum er alsiða að flóttafólk sem hefur fengið stöðu sína viðurkennda, sem á að njóta alþjóðlegrar verndar í þeim ríkjum, býr við ofbeldi sem ekki er tekið á. Það getur ekki sótt menntun fyrir börnin sín eða sómasamlega heilbrigðisþjónustu. Á grundvelli þeirra aðstæðna fór fólk í auknum mæli að flýja áfram og bankaði m.a. upp á hér á landi.

Lögin voru engan veginn í stakk búin til að taka á þessum tilvikum en þá var búið til hálfgert skítamix. Þá fannst nefnilega sú leið að veita fólki dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef kerfið vildi skjóta skjólshúsi yfir þennan hóp. En þetta skítamix hélt náttúrlega engu vatni. Það fattaði þingmannanefndin sem samdi ný útlendingalög. Ólöf Nordal, hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra, áttaði sig alveg á því og þess vegna var búið um þennan hóp sérstaklega í 36. gr. útlendingalaga, hóp umsækjenda sem koma hingað eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki. En núna stöndum við frammi fyrir því enn einu sinni að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að skemma þetta tiltekna sérstaka ákvæði sem skiptir svo miklu máli í heiminum eins og hann er orðinn í dag. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að smyrja endursendingarvél Útlendingastofnunar gagnvart þeim hópi sem er að flýja ónýtu verndarkerfin í suðurhluta Evrópu.

Ég gerði mér það til leiks, herra forseti, að bera saman texta þessa frumvarps og síðustu útgáfu frumvarpsins sem lá hér fyrir þingi fyrir ári. Mér fannst mjög áhugaverð ritstjórnarákvörðun sem hafði verið tekin í greinargerð varðandi það sem er núna 12. gr. frumvarpsins og snýst um að smyrja endursendingarvélina gagnvart fólki með vernd í öðru landi. Þar er nefnilega búið að klippa út klausu um það að breytingunum hafi verið ætlað að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur. Efnislega er ákvæðinu ekkert breytt. Þetta er bara tekið út úr greinargerð, ég myndi segja til friðþægingar fyrir samstarfsflokka dómsmálaráðherra. Það þarf auðvitað ekki að tiltaka þetta í greinargerð. Það þarf ekkert að impra á því sem er þannig í framkvæmd nú þegar að Dyflinnarreglugerðinni er beitt eins hart og hægt er. Það er raunin og verður það áfram ef dómsmálaráðherra fær sínu framgengt. En væntanlega er þetta sáluhjálparatriði fyrir fólk sem vill ekki horfast í augu við það hvað stuðningur þess við þetta frumvarp þýðir í raun og veru.

Fólk staldraði sérstaklega við e-lið 12. gr. fyrir ári og ég staldra við hann aftur í dag. Það er liðurinn sem tekur þennan tiltekna hóp sem er með vernd í ónýtu verndarkerfi í öðru landi út fyrir sviga og neitar kerfinu um að taka hann til efnismeðferðar þó að hann hafi sérstök tengsl við landið eða einhverjar aðrar sérstakar ástæður mæli með því. Svo ég grípi niður í umsögn Rauða krossins um þetta atriði sérstaklega frá maí síðastliðnum, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn leggst alfarið gegn tillögunni. Rauði krossinn leggur áherslu á að um er að ræða afar umfangsmikla breytingu sem felur í sér gríðarlega skerðingu á réttarvernd fólks á flótta.“

Ég hef varla tölu á því hversu oft ríkisstjórnin, ráðherrann, eða ráðherrarnir, eða stjórnarþingmenn hafa og ætla að hunsa þessi varnaðarorð Rauða krossins sem er talsmaður flóttafólks hér á landi. Í þessu samhengi er erfitt annað en að benda á hræsnina sem felst í því að segja í september síðastliðnum að ríkisstjórnin ætli góðfúslega að taka á móti 15 manns úr brunnum flóttamannabúðum á Lesbos en leggja síðan fram frumvarp um að fara að senda fólk inn í hinn endann á verndarkerfi Grikklands sem er löngu brostið.

Síðan kemur önnur breyting frá fyrri útgáfu við 12. gr. frumvarpsins. Sú er nær því að vera efnisleg en er það þó ekki. Væntanlega erum við hér aftur að horfa upp á texta sem er settur inn til friðþægingar af pólitískum ástæðum en ekki efnislegar breytingar í þágu flóttafólks. Það er sú viðbót að stjórnvald skuli að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þessu fólki sem ekki má taka til efnismeðferðar samkvæmt frumvarpinu. Það mega stjórnvöld í sjálfu sér gera í dag. 74. gr. útlendingalaganna leyfir það. En fyrir utan það að mannúðarleyfin eru úrelta kerfið sem við hurfum frá 2016, þá eru þau líka óttalegt drasl. Það er mjög opið og matskennt hvenær fólk fellur undir þau. Þeim fylgir ekki atvinnuleyfi, það er erfitt að sækja sér þjónustu miðað við það þegar fólk er með alþjóðlega vernd samþykkta, svo gilda þau bara í eitt ár þannig að fólk gerir varla annað en að lifa milli vonar og ótta um hvort það fái framlengingu eða verði brottvísað, þangað til það fær loksins ríkisborgararétt, ef þá einhvern tímann.

Horfum aftur til 2016, ársins sem lögin voru samþykkt, af því að þar eigum við dæmi sem var rætt í þessum sal, var rætt, að mig minnir, í allsherjar- og menntamálanefnd og varðaði sýrlenska fjölskyldu, hjón og tvær dætur sem komust í fjölmiðla. Það er einhvern veginn þá og aðeins þá sem kerfið bregst við af mannúð þessa dagana. Þessi fjölskylda komst í fjölmiðla og vakti nógu mikla athygli til að þingmenn færu að tala máli hennar, til að almenningur áttaði sig á stöðunni. Þetta var fólk sem var með vernd í Grikklandi en sú vernd var ónýt þannig að það flýði hingað. Vegna þess að málið hafði komist í fjölmiðla sá kærunefnd útlendinga að sér og brást við með skítamixinu sem ég nefndi hér áðan, með dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það var vegna þessa máls og mála eins og þess sem 36. gr. var samin eins og hún er. Hérna leggur síðan dómsmálaráðherra til að þingið snúi þeirri vinnu við, stroki út skýrt framfaraskref sem byggist á góðri vinnu í þverpólitískri sátt, og endurveki þennan draug úr eldri lögum. Reyndar má alveg spyrja sig hvort þetta standist önnur ákvæði laganna eða alþjóðlegar skuldbindingar varðandi flóttafólk, vegna þess að til að veita fólki þetta skitna mannúðarleyfi þarf í grunninn að komast að þeirri niðurstöðu að fólkið sé ekki flóttamenn. Er þá ekki farið að vefengja fyrri ákvörðun annars ríkis um stöðu viðkomandi sem flóttamanns, eitthvað sem við eigum ekki að gera?

Virðulegur forseti. Þetta er endurtekið efni þannig að ég er kannski að endurtaka sjálfan mig dálítið en þetta frumvarp sýnir, alveg eins og síðast þegar það kom fram, alveg eins og þarsíðast og þarþarsíðast, ekki samstöðu með flóttafólki. Það sýnir ekki samstöðu með ríkjum sem geta ekki veitt flóttafólki þá mannúðlegu meðferð sem það á skilið. Þetta frumvarp sýnir hins vegar kaldrifjaða stefnu í málefnum hælisleitenda sem opinberast þetta skiptið enn frekar í því að aðeins eru gerðar orðalagsbreytingar til að koma til móts við pólitíska hagsmuni samstarfsfólks í ríkisstjórn. En ekki eru gerðar þær efnislegu breytingar sem sérfræðingar hafa kallað eftir í hvert einasta skipti sem þetta ógeðslega frumvarp skýtur upp kollinum. Það er skammarlegt.