151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hefur verið margoft bent á þá er ástandið t.d. í Grikklandi þannig að aðstæður fólks geta versnað þegar það fer úr flóttamannabúðunum og fær hina svokölluðu vernd. Í flóttamannabúðum hefur það alla vega lágmarksheilbrigðisþjónustu, en fer út í ástand þar sem það hefur ekki lágmarksheilbrigðisþjónustu, þegar það kemur þaðan út og fær vernd. Á þetta hefur verið bent margsinnis en aftur er þetta mál lagt fram. Ef hv. þingmaður hlýddi á ræðu hæstv. dómsmálaráðherra áðan þá er mjög ljóst að þessi staðreynd er ekki viðurkennd af yfirvöldum. Heimild til þess að veita leyfi á grundvelli mannúðarástæðna dugar hvergi til og það er mjög augljóst þegar hlustað er á ræðu hæstv. dómsmálaráðherra eða greinargerð frumvarpsins skoðuð.

Nú heyrði ég hv. þingmann tala hér áðan um að hún hefði ásamt öðrum hv. þingmanni gert fyrirvara við ákveðna hluti í þessu frumvarpi. Þegar ég heyrði þessi orð varð mér hugsað til orðatiltækis sem er stundum viðhaft á ensku, og ég ætla aðeins að umorða það í ljósi nýrra tíma: Hið illa sigrar þegar gott fólk gerir ekkert. Það er ekki nóg, virðulegi forseti, að mínu mati, að við gerum fyrirvara við einstaka greinar í málum þegar við höfum valdið í okkar höndum til þess að hindra þær. Hér er þetta frumvarp lagt fram, væntanlega eftir að hafa fengið samþykki þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Það er þá í höndum þingmanna þess ágæta flokks, sem hefði aldrei lagt svona mál fram sjálfur, að stöðva það og gera það að verkum að okkur hér á Alþingi sé ekki boðið upp á svona þegar við erum að tala um fólk í viðkvæmri stöðu. Ég kom í sjálfu sér ekki hingað upp til að spyrja hv. þingmann heldur til að hvetja hv. þingmann til þess að nýta neitunarvald sitt þegar það á við í þessum málum.