151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt eitthvað í þessu frumvarpi sem er gott. Þess vegna hefði vald Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs verið eitthvert gagnvart því að segja nei við þessu tiltekna frumvarpi en segja já við því góða sem er í því og leggja þá fram gott frumvarp en ekki vont eins og það er núna. Þetta vald er í höndum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ég kann að meta nefndarstörf eins og aðrir hv. þingmenn vegna þess að það er jú þar sem hlutunum er stundum breytt. En er það mat hv. þingmanns, eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, eftir að hafa séð frumvarpið lagt fram nokkrum sinnum og eftir að hafa hlýtt á ábendingar t.d. Rauða krossins, sem hv. þingmaður þekkir mætavel, álykta ég af ræðu og orðum hv. þingmanns, að það séu líkur á því að þetta mál verði betra þegar það kemur úr allsherjar- og menntamálanefnd undir handleiðslu hv. Sjálfstæðisflokks? Að málið verði ekki eins og það er núna? Það hefur farið í samráðsgátt, það komu athugasemdir, það hefur verið lagt fram áður og þá komu athugasemdir og þær voru hunsaðar, virðulegi forseti. Mér þykir hv. þingmaður hafa fullmikla trú miðað við þá staðreynd.

Ég átta mig alveg á því að nefndir geta breytt hlutum. En það er forsaga að þessu máli. Það hefur verið lagt fram áður. Það hafa komið umsagnir, það hefur verið sett í samráðsgátt og það komu umsagnir, það var lagt aftur fram og við kvörtuðum hér í ræðum og bendum á þetta aftur og aftur. Það eru fréttir, það er umfjöllun um þessa augljósu punkta sem alltaf verða eftir. En í þetta sinn, ef við hendum málinu í nefnd gæti það orðið í lagi og þess vegna greiðir Vinstrihreyfingin – grænt framboð atkvæði með því að leggja þennan óskapnað fram.

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann í þetta sinn: Segjum sem svo að þetta mál komi óbreytt úr nefnd, að hún komist að þeirri röngu niðurstöðu að frumvarpið taki alveg utan um þær athugasemdir sem til að mynda Rauði krossinn hefur gert. Ætlar hv. þingmaður þá að greiða atkvæði með málinu?