151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það hlutverk og markmið okkar hér að gera heiminn betri og ég held að við hv. þingmaður séum sammála um þá grunnskoðun. Ég tel að til viðbótar við þá löggjöf sem við höfum um málefni útlendinga leggjum við okkar af mörkum til að mynda í gegnum um þróunarsamvinnu sem við tökum þátt í til þess einmitt að draga úr því að fólk þurfi að flýja aðstæður á heimaslóðum sínum, og eins með því að stuðla að friðsamari heimi þar sem fólk þarf ekki að flýja vegna stríðsofsókna. Svo er það auðvitað það sem kemur til með að skipta meira og meira máli inn í framtíðina, þ.e. að stemma stigu við loftslagsvánni því að hún mun því miður hrekja enn fleiri á flótta ef ekki tekst að snúa þar málum við.

Varðandi það hvað við getum gert í málum sem snúa að þeim sem koma til Íslands í gegnum lög um útlendinga þá þurfi nefndin að fara mjög vel yfir þær tillögur sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi, hvernig ákvæðin tala saman, og heyra sjónarmið umsagnaraðila um það. Ég legg áherslu á að við höfum hér kerfi sem tekur á móti fólki með mannúð að leiðarljósi, skilvirkni á ekki að vera útgangspunkturinn. Að sama skapi skiptir auðvitað máli að fólk fái góða og raska meðferð, en hún á ekki að vera á kostnað innihaldsins. Það er þetta sem við þurfum að taka saman og púsla saman í nefndarstarfinu.