151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrar athugasemdir og spurningar til hv. þingmanns sem segir að við séum að senda fólk á guð og gaddinn. Öll mál eru auðvitað skoðuð hér á landi með tilliti til þess hvort endursending leiði til þess að brotið sé gegn 42. gr. laganna, sem er meginreglan, um að ekki skuli senda fólk þangað sem líf þess og frelsi kann að vera í hættu. Og nú í þessu frumvarpi er að bætast við skoðun á dvalarleyfi af mannúðarástæðum í þessum málum þar sem heimilt verður að veita útlendingi með vernd í öðru ríki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti hann sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í því landi sem honum yrði vísað til. Það er ágætt að hafa þetta á hreinu þegar hv. þingmaður lýsir upplifun sinni, ef svo má segja, af kerfinu. Og þá vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hann heldur því fram að mannúð sé undantekning — mannúð og skilvirkni er nefnilega tvennt sem á vel saman — hvort það sé þá undantekning að 631 hafi verið veitt vernd á Íslandi 2020 og 531 veitt vernd 2019 og mun, mun færri synjað um slíka vernd: Getur maður talað um að það sé undantekning þegar svona stór hluti af þeim sem leita hingað hljóta hér alþjóðlega vernd og ríkan stuðning íslensks samfélags? Ég myndi ekki telja það undantekningu.