151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:36]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir andsvarið. Ég vil byrja á að segja að ég held að við séum sammála um að það grundvallaratriði að mannúð og skilvirkni eigi — ja, hæstv. ráðherra segir að eigi vel saman. Ég vil kannski ganga svolítið lengra og segja að mannúð og skilvirkni séu óhugsandi hvort án hins, þau hljóti ævinlega að fara saman. Ég talaði hér um færiband og ég talaði um mannúðarástæður sem undantekningu vegna þess að við vitum að þau þrjú ríki sem hefur hér oft borið á góma í þessum umræðum, Ungverjaland, Ítalía og Grikkland, hafa ekki upp á að bjóða aðstæður sem eru boðlegar fyrir flóttafólk en þau hafa samt sem áður verið skilgreind sem örugg ríki af íslenskum yfirvöldum og fólk hefur verið sent þangað. Að sjálfsögðu hefur fólk fengið hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem er vel, sem er jákvætt og lofsvert, en samt sem áður, á meðan þessi skilgreining er fyrir hendi og meðan fólk er sent út í þessar aðstæður þá finnst mér ekki hægt að tala um að mannúð sé grunnreglan.