151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig að hv. þingmaður telur að það sé undantekning að kerfið sýni mannúð þegar veitingarhlutfallið á alþjóðlegri vernd er 77%? Ég vil einfalt svar við þeirri spurningu. Við ráðum illa við það að svara fólki fljótt í kerfinu í dag. Fólk er að bíða í marga mánuði eftir afgreiðslu og alþjóðlegri vernd og sérstaklega sá hópur sem er í raunverulegri þörf fyrir alþjóðlega vernd, er hvergi með hana, er að flýja ofsóknir. Við verðum að létta á kerfinu okkar, sem er öðruvísi en kerfin í löndunum í kringum okkur, með einhverjum mögulegum hætti. Það væri ágætt að heyra frá hv. þingmanni hverjar lausnir hans eru á því. Hvernig ætlar hann að gera vel í þessu kerfi með þeim fjármunum sem eru fyrir hendi? Það væri líka áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvað hann telur þá ekki vera undantekning á mannúð ef horft er á öll Evrópuríki og veitingarhlutfallið og til þess að þeir sem sækja hingað eru mun fleiri en í löndunum í kringum okkur.

En spurningin í upphafi var einföld: Telur hv. þingmaður að 77% veitingarhlutfall á alþjóðlegri vernd sé undantekning á mannúð miðað við hvernig kerfið okkar er?