151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:40]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef slíkar tölur ekki á hraðbergi og ég er ekki búinn undir það að takast á við hæstv. ráðherra um þær tölur. Þekki þær ekki en á alveg áreiðanlega eftir að kynna mér þær. Ég veit hins vegar að fjárframlög til Útlendingastofnunar hafa verið ónóg og ég veit að Útlendingastofnun hefur kvartað undan því að geta illa sinnt lögboðnu verkefnum sínum vegna þess að fjárskortur hefur þar hamlað. Ég veit það líka, svo ég hamri enn á þessu sem ég nefndi í ræðu minni, að á meðan fólk er sent í þessar óboðlegu aðstæður á grundvelli úreltrar skilgreiningar á því hvað sé öruggt ríki og hvað ekki, þá er ekki hægt að tala um mannúð.