151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi, sem hefur títt verið nefnt, að hér fáum við fleiri umsóknir miðað við höfðatölu en t.d. í Danmörku og Noregi og eitthvað aðeins meira en í Svíþjóð, ekki mikið fleiri samt. Ég vil í fyrsta lagi minna á að við Íslendingar erum mjög gjörn á að segjast vera best í einhverju eða mest í einhverju miðað við höfðatölu og hef ég grínast með það við vini mína að við séum með langflestar tölur miðað við höfðatölu. Ég hygg að það ætti ekkert að koma fólki á óvart að hið sama gildi hér. En óháð því, jafnvel þótt við gleymum því, þá langar mig til að segja hv. þingmanni hvers vegna ég tel mína nálgun á flóttamannavandanum í kjölfar Sýrlandsstríðsins vera betri en nálgun hv. þingmanns:

Evrópa telur um 500 milljónir manna, fer eftir því nákvæmlega hvaða lönd er átt við o.s.frv., en við erum ekki nálægt því það mörg. Þegar flóttamannakrísan hófst þá fór álagið skiljanlega á ytri landamæri Evrópusambandsins, Ítalíu, Grikkland og þjóðríki þar í kring. Viðbrögð Evrópusambandsins sérstaklega, en Evrópuríkja almennt, var það að vera alltaf að reyna að ýta vandanum eitthvert annað. Þegar Danmörk og Noregur og önnur ríki fara að herða reglur sínum þá segir það sig sjálft að fólk sem þarf raunverulega að komast eitthvert til að fá að lifa í friði verður að fara annað. Það fer ekki aftur heim til sín, því að þaðan er það að flýja. Með öðrum orðum: Að hvert einasta ríki sé sífellt að reyna að ýta vandanum eitthvert annað leysir hann ekki.

Það sem við ættum að spyrja okkur að, og ég hafði því miður ekki tækifæri til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra áðan, er: Hvers vegna berjumst við ekki fyrir því að Evrópuríkin taki sig saman um að taka á móti þessu fólki? Vegna þess að 500 milljóna manna samfélag gæti það að mínu mati mjög léttilega án þess að það þyrfti að ræða. En í stað þess er hvert þjóðríki að reyna að ýta öllum út, passa að sem fæstir komast inn. Það leysir engan vanda. Og hér stöndum við tíu árum seinna eða svo, frammi fyrir sama vandanum og ekki er hægt að sjá að hann skáni neitt. Mig langar að heyra viðbrögð hv. þingmanns við þessum vangaveltum.