151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisandsvar og tek alveg heils hugar undir með honum að auðvitað á Evrópa að taka sig saman í þessum efnum og bæta ráð sitt, eins og varðandi Grikkland og aðstöðuna þar. Í krafti stærðar sinnar hefur Evrópusambandið náttúrlega miklu meiri aflsmuni og fjármuni til að gera þetta vel. En einhverra hluta vegna hefur það ekki tekist. Það sýnir kannski samstöðuna innan Evrópusambandsins yfir höfuð. En það eru svo sannarlega fleiri ríki sem geta tekið sig á. Ég nefni sérstaklega ríkin fyrir botni Miðjarðarhafs, eins og Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádi-Arabíu o.s.frv., vellauðug ríki. Hvar eru þau þegar trúbræður þeirra eru ofsóttir, t.d. í Sýrlandi? Taka þau á móti flóttamönnum? Nei, það gera þau svo sannarlega ekki. Það er víða sem ríki geta tekið sig á í þeim efnum sem hafa svo sannarlega burði til þess. En því miður sjáum við hvernig þau hafa haldið á sínum málum, staðið fyrir stríðsrekstri í nágrannaríkjunum sem valdið hefur ómældum hörmungum, eins og í Jemen, og halda því áfram í krafti auðs síns og hafa enga samúð með trúbræðrum sínum, sem eru múslimar. Ég nefndi Kína sem dæmi. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkuð heyrst frá Sádi-Arabíu um þær ofsóknir sem múslimar í Kína hafa þurft að þola, sem eru gríðarlegar og alþjóðasamfélagið hefur algerlega horft fram hjá. Bandaríkjamenn mega þó eiga að þeir hafa upp á síðkastið vakið athygli á því ljóta máli. Að öðru leyti er ég sammála hv. þingmanni hvað það varðar að Evrópa þarf svo sannarlega að taka sig á og á að geta það.