151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held það sé engin mótsögn í þessu. Við verðum bara átta okkur á fámenni þjóðarinnar, Íslendinga. Þegar við horfum til um 500 milljóna manna svæðs sem Evrópa er, eins og hv. þingmaður nefndi, þá er náttúrlega augljóst að við getum ekki tekið á móti öllum. Það sjá allir. Á sama tíma hefur Evrópa miklu meiri burði til að taka á móti fleirum, öllum, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þeir hafa svo sannarlega burði til að taka á móti öllum. Evrópusambandið ætti svo sannarlega að eiga auðvelt með að skipuleggja það þannig að þeir gætu gert það sómasamlega, sem virðist ekki vera raunin. En það er sjálfsagt ósætti innan Evrópusambandsins sem hefur valdið því að þeir eru ekki komnir lengra hvað það varðar.

Hvað okkur varðar er afstaða mín alveg skýr. Við eigum að styðja við þá sem svo sannarlega eru í neyð og leita hingað. En við höfum takmarkaða fjármuni, það er bara þannig, og við eigum að nýta þá sem allra best. Ég hef ákveðnar skoðanir á því hvernig á að nýta þá. Ég hef sagt það hér. Ég vil sjá þá nýtta meira innan þeirra svæða þar sem flóttamenn eru, eins og í Miðausturlöndum og í nágrannaríkjunum, vegna þess að ég tel að við getum hjálpað miklu fleirum fyrir þessa fjármuni sem við nýtum hér. Ég er hins vegar ekki að segja að við eigum að loka fyrir móttöku flóttamanna, og alls ekki kvótaflóttamanna. Ég er líka þeirrar skoðunar að við eigum að horfa svolítið í þjóðfélagshópa og trúarhópa. Ég hef nefnt það áður úr ræðustóli að við eigum að horfa t.d. til kristinna flóttamanna sem eru ofsóttir víða um heim og eru ofsóttasti trúarhópur heimsins. Þeir hafa verið í minni hluta þegar við höfum tekið á móti kvótaflóttamönnum hér. Ég hefði viljað sjá að við færum (Forseti hringir.) yfir sviðið og skoðuðum hvort ekki sé hægt að fjölga í þeim hópi, svo dæmi sé tekið. Þannig að það er að mörgu að hyggja í þessu, hv. þingmaður. (Forseti hringir.) En ég held að við séum sammála um þá nálgun að auðvitað á Evrópusambandið að gera mun betur. Ég held að við séum algjörlega sammála um það.