151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á ýmislegt sem myndi krefjast lengra svars en tveggja mínútna andsvars. Eitt af því var að við værum alltaf að bregðast við og reyna einhvern veginn að þrengja kerfið eftir því sem fram vindur. Þessi málaflokkur er auðvitað þannig að hann breytist. Staðan breytist og málaflokkurinn þróast og við þurfum eðlilega að skoða löggjöf okkar í takti við það. Við erum núna að bregðast við þeirri stöðu til að geta tekið betur á móti þeim sem hingað koma og falla undir þá skilgreiningu að þurfa alþjóðlega vernd, eins og annars staðar í Evrópu, og haft sambærilega löggjöf og önnur Evrópulönd er varðar þá sem eru komnir með alþjóðlega vernd en hafa samt sem áður tækifæri til að þessir aðilar geti fengið mannúðarleyfi.

Síðan lýsti hv. þingmaður sérstaklega aðstæðum í Ungverjalandi og tók sérstaka umræðu um það. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað höfum við vísað mörgum til Ungverjalands á síðustu þremur eða fjórum árum?