151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki þá tölu fyrir framan mig, en hæstv. ráðherra sagði að við værum alltaf að bregðast við og að málaflokkurinn breyttist. Mér finnst svolítið eins og hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekki hlustað á kjarnann í ræðu minni. Ég veit að við erum að bregðast við. Ég veit að við erum að breyta lögum. Gagnrýni mín snýr að því hvernig við breytum lögum. Hæstv. dómsmálaráðherra segir aftur að það sé til þess að taka betur á móti þeim sem koma sem hafa ærið tilefni til.

Virðulegi forseti. Það var nákvæmlega sama ástæðan og var notuð hér á sínum tíma, alla tíð frá 2013, eða svo lengi sem ég hef verið á Alþingi. Sama ástæðan er alltaf notuð, að auka skilvirknina, spara fé og bæta kerfið fyrir þá sem þurfa á því að halda. Virðulegi forseti. Þetta frumvarp bætir ekki stöðuna fyrir fólk sem þarf á því að halda vegna þess að hingað kemur fólk frá Grikklandi, sér í lagi, hygg ég, eða alla vega frá löndum þar sem fólk hefur þegar stöðu og þarf að fá stöðu annars staðar vegna aðstæðnanna þar í landi.

Hvað varðar Ungverjaland, Ítalíu og Grikkland þá nefndi ég þau lönd í ræðu minni vegna þess að þau koma fram í frumvarpi hæstv. ráðherra. Það var ástæðan fyrir því að ég tiltók þau, ekki vegna þess að ég hafi litið á einhverjar tölur og metið það út frá þeim, heldur met ég það út frá orðum sem ég hygg að séu ráðherrans sjálfs eða ígildi þeirra. Ég verð að vísa því aftur til hæstv. ráðherra.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir einnig að við séum að gera þessar breytingar til að hafa sambærilega löggjöf og önnur lönd. Aftur finnst mér eins og hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekki hlýtt á ræðu mína, en það er það sem ég var að gagnrýna að væri alltaf fókusinn hjá okkur, að reyna að bregðast eins við. Vandinn er ekki að skána. Hann er ekki að batna, virðulegi forseti. Þetta virkar ekki og það er búið að reyna þetta margsinnis undir alls konar kringumstæðum vegna heillar flóru af mismunandi vandamálum og alltaf versnar vandinn. Af hverju, virðulegi forseti? Vegna þess að við hugsum þetta rangt, inntakið í því hvernig við nálgumst vandann er rangt.