151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:49]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Málið var lagt fram áður á 149. löggjafarþingi af starfandi dómsmálaráðherra, samflokkssystur hæstv. núverandi dómsmálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, og sömuleiðis á 150. löggjafarþingi. Í bæði skiptin fengu þau frumvörp hörð viðbrögð, bæði af hálfu okkar þingmanna en líka af hálfu mannúðarsamtaka, félagasamtaka og stofnana sem starfa við mannréttindagæslu. Í dag þegar við ræðum þetta frumvarp hafa verið gerðar smávægilegar breytingar á því en því miður engar stórvægilegar efnislegar breytingar þó svo að hér hafi komið upp stjórnarþingmenn og haldið því fram. Líklega er það til að hafa aðeins betri samvisku í málaflokknum en engan veginn eru þær nægilegar til að hægt sé að una við þetta frumvarp. Það er nefnilega gamall, þreyttur, lúinn og óvinsæll kunningi sem enginn vill sjá og ekkert er því miður búið að lappa upp á af neinni alvöru heldur dúkkar hér upp frumvarp sem inniheldur nákvæmlega sömu pólitík og nálgun á málefni útlendinga sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd og áður á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Það fólk sem hingað leitar til okkar eftir alþjóðlegri vernd, eins og við vitum, er ekki með síendurteknar tilhæfulausar umsóknir eins og klifað er á í frumvarpinu heldur er þetta að meginuppistöðu fólk sem leitar hingað eftir friði og ró, burt frá stríðsátökum, sárafátækt og jafnvel afleiðingum loftslagsbreytinga á borð við þurrka og markvissar og hraðar breytingar á möguleikum fólks til ræktunar matvæla.

En aftur að frumvarpinu. Mig langar samt að segja að hér eru jákvæð atriði sem mig langar að halda til haga um fjölskyldusameiningu. Það ákvæði hefur verið betrumbætt. Það má líka þakka m.a. umsögn sjálfrar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem sá ástæðu til þess að senda hingað til þjóðþings okkar Íslendinga umsögn um það frumvarp sem lagt var fram árið 2019. Um það frumvarp bárust líka, eins og ég sagði áðan, fjölmargar umsagnir. Rauði kross Íslands sendi inn 25 blaðsíðna umsögn sem er nánast einsdæmi, myndi ég halda. Í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við forvera þessa frumvarps sem við ræðum í dag gerði sú virta stofnun bæði almennar athugasemdir við efni núgildandi laga okkar um útlendinga sem og einstakar greinar frumvarpsins sem þá var lagt fram um breytingu á lögum um útlendinga. Þær athugasemdir Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna lutu einkum að frestun réttaráhrifa laganna, skilgreiningum frumvarpsins á bersýnilega tilhæfulausum og endurteknum umsóknum og svo fjölskyldusameiningu flóttafólks sem hingað kemur til lands, m.a. í boði stjórnvalda. Það er það síðastnefnda sem komið hefur verið til móts við í þessu frumvarpi.

Það er með ólíkindum að ekki hafi þótt ástæða til að hlýða og lúta athugasemdum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um skilgreininguna á tilhæfulausum og endurteknum umsóknum flóttafólks. Hingað hafa komið upp þingmenn sem hafa talað um það fjálglega, án þess að geta vitnað í tölulegar heimildir, um að hér sé allt vaðandi í fólki með síendurteknar umsóknir um vernd á Íslandi. Það er bara því miður, herra forseti, ekki rétt. En það er magnað að hæstv. dómsmálaráðherra sjái ekki ástæðu til þess að breyta þessari skilgreiningu, sem klifað er á í þessu frumvarpi, á bersýnilega tilhæfulausum umsóknum. Það eru örugglega einhverjar tilhæfulausar umsóknir frá fólki sem hingað kemur til að leita eftir alþjóðlegri vernd en að það sé meginuppistaðan í umsögnum fólks sem hingað leitar til okkar og að það sé útgangspunkturinn í þessu frumvarpi er dapurlegt, herra forseti.

Það er líka þannig að skilgreiningin á bersýnilega tilhæfulausum umsóknum felur áfram í sér tengingu við svokölluð örugg upprunaríki án þess að hin ógagnsæi listi Útlendingastofnunar hafi verið uppfærðir með skýrum og gagnsæjum hætti um hvað teljist vera öruggt upprunaríki. Er Grikkland t.d. öruggt upprunaríki? Það hefur verið gríðarlega mikil fjölgun í umsóknum til landa á borð við Austurríki, Möltu, Belgíu, Frakklands og Hollands frá fólki sem hlotið hefur vernd í Grikklandi. Það sýnir okkur bersýnilega aðstæðurnar í Grikklandi sjálfu og sömuleiðis að það er varhugavert að telja að þetta sé í raun og veru bara svart og hvítt; ef fólk hafi hlotið alþjóðlega vernd í öðru landi en hér þá sé það ástæða til þess að vísa fólki burt. Það er miður og hvað þá núna þegar við höfum verið í rúmt ár í heimsfaraldri og ástand í löndum hefur verið mjög misjafnt til að taka á móti fólki á flótta.

Annað sem mig langar að nefna í þessu frumvarpi er mannúðarsjónarmið sem er komið inn í e-lið 12. gr. lagafrumvarpsins og reyndar minnst á víðar. Það mannúðarsjónarmið er illa skilgreint og er líka vísað í þær aðstæður sem ríkja í því landi sem viðkomandi hefur þegar hlotið vernd í og það, herra forseti, skil ég hreinlega ekki. Verður hvert mál hvers einstaklings skoðað fyrir sig út frá mannúðarsjónarmiðum? Þó svo að að orðinu til sé verið að liðka fyrir heimildir fyrir fólk sem hlotið hefur dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða til að vinna þá gildir það samt í takmarkaðan tíma og það er sömuleiðis ekki verið að tryggja hér stöðu þessa fólks heldur heldur það áfram að búa við slæma og ótrygga stöðu. Og hver er þá tilgangurinn, ef ekki að tryggja réttindi fólks sem sækir um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða? Mannúðarsjónarmiðin eru, herra forseti, ansi sterk. Það þýðir að viðkomandi hefur sætt ofsóknum, er að flýja gríðarlega alvarlegar afleiðingar harðra og langvarandi stríðsátaka. Af hverju erum við að koma inn í frumvarpið ákveðnu mannúðarsjónarmiði ef því fylgja ekki raunveruleg réttindi? Þá læðist að manni sá grunur að þetta sé í raun og veru einhvers konar yfirklór til að fólki líði aðeins betur með þetta frumvarp en áður.

Herra forseti. Við erum í 1. umr. um frumvarpið og hv. allsherjar- og menntamálanefnd á eftir að taka það til umfjöllunar. Hér í salnum situr m.a. hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sem er varaformaður nefndarinnar og mun eflaust tryggja að nefndin fari vel og vandlega yfir þetta mál með gestakomum og umsögnum sem ég efast ekki um að verði margar líka að þessu sinni, eins og áður þegar þetta frumvarp hefur verið lagt fram með öllum sínum göllum en því miður færri kostum fyrir þau sem hingað leita.

Annað í þessu frumvarpi eru staðhæfingar á borð við þær að Ísland sé að gera eitthvað betur í móttöku flóttafólks en aðrar þjóðir, við séum að taka á móti svo mörgum. Það er hreinlega rangt, herra forseti. Við stöndum okkur ekkert betur en aðrir. Evrópuríkin hafa auðvitað staðið sig misvel en við getum nefnt dæmi um lönd á borð við Þýskaland og fleiri sem hafa líka axlað ábyrgð og staðið sig vel þó svo að önnur Evrópuríki hafi staðið sig illa.

Mig langar til þess að hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að taka fyrir þessi atriði sem ég nefndi, þ.e. mannúðarsjónarmiðin, skilgreininguna um tilhæfulausar umsóknir. Mig langar líka til að biðja hv. nefndarmenn um að taka fyrir ríkisfangsleysið af því að það er mál sem við þurfum að taka miklu fastari tökum. Það eru samningar þar að lútandi sem við sem þjóð og ríki höfum ekki skrifað undir, alþjóðlegir sáttmálar og samningar sem geta tryggt fólki mikil og nauðsynleg réttindi, þar á meðal börn sem fæðast hér á landi.

Herra forseti. Það er til mælikvarði á það hversu manneskjuleg samfélög eru. Hann er sá hvernig við komum fram við þau sem minnst mega sín, hvort við útrýmum fátækt, hvort við styðjum við þau sem þurfa stuðning til að eiga mannsæmandi líf, hvernig við tökum á móti fólki sem til okkar leitar eftir alþjóðlegri vernd undan stríðsátökum, ofsóknum, sárafátækt eða afleiðingum loftslagsbreytinga. Íslenskt samfélag á að taka utan um alla. Það á ekki að reka neinn burt, ekki reka börn eða barnafjölskyldur úr landi. Meiri hluti almennings vill ekki slíka hörku eins og nýlegar skoðanakannanir sýna. Þær sýna nefnilega miklu jákvæðari afstöðu fólks en áður til samborgara okkar af erlendum uppruna og í raun og veru miklu jákvæðari afstöðu en endurspeglast oft hér í þessum þingsal. Það er verulegt umhugsunarefni. Við höfum líka séð samtakamátt þúsunda manna sem hafa tekið sig til og mótmælt því þegar reka átti börn úr landi. Það er ekki í takt við vilja fólks sem vill meiri mannúð, alvörumannúð, mannúðarsjónarmið sem þýða eitthvað vegna þess að það er greinilegur vilji til þess hjá fólki.

Það eru því vonbrigði að sjá þetta frumvarp koma hér fram í þriðja sinn ekki meira breytt en raun ber vitni vegna þess að við þurfum meiri mannúð í þennan málaflokk. Við þurfum skýrari afstöðu og skýrari skilaboð um það, ekki fagrar ræður og fögur fyrirheit, heldur skýrari afstöðu og aðgerðir.

Við þurfum líka að láta þessi mannúðlegu kerfi grípa fólk við erfiðar aðstæður og þegar við höfum tryggt réttindi fólks þá þurfum við að halda áfram að grípa utan um það fólk. Það getur verið þvílíkur auður í því fólki sem hingað leitar til okkar og ef það er eitthvað sem við höfum lært af þessu rúma ári af heimsfaraldri er það aukin samkennd og mannúð, umburðarlyndi og náungakærleikur. Með það veganesti í vinnu nefndarinnar þá vonast ég og fleiri þingmenn sem hér hafa talað í dag, heyrist mér, eftir því að við afgreiðum þetta mál með breytingum, ef við náum því í gegn, breytingum er grundvallast á mannúðarsjónarmiði vegna þess að það er greinilegur vilji meiri hluta fólks hér á landi og það er vel og það er gott merki.

Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að fara vel yfir umsagnir mannúðarsamtaka og mannréttindasamtaka sem munu berast um þetta frumvarp og taka tillit til þeirra.