félög til almannaheilla.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu um frumvarp til laga um félög til almannaheilla og ég er ánægð með að sjá að þetta frumvarp er komið hér fram. Það hefur nú verið í pípunum í nokkuð mörg ár eins og hæstv. ráðherra fór yfir.
Mig langar að spyrja aðeins betur út í breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það hlaut þinglega meðferð á 150. löggjafarþingi. Þar var m.a. brugðist við umsögnum íþróttahreyfingarinnar þar sem sérstaklega var talið æskilegt að haldið yrði í sjálfstæði hreyfingarinnar og forræði hennar á eigin málefnum, auk þess sem regluverk Íþróttasambands Íslands tæki til allra þeirra álitaefna sem snúa að hreyfingunni og starfsemi hennar. Ég hef mikinn áhuga á að vita hvað kom út úr frekari athugunum á þessum athugasemdum, hvort það leiddi til breytinga á frumvarpinu eða hvort íþróttahreyfingin hafi þá bara sama val og aðrir um það hvort þau félög sem tilheyra íþróttahreyfingunni óski eftir því að falla undir félög til almannaheilla og hvort það muni hafa einhver áhrif á íþróttahreyfinguna til frambúðar eða hvort staða hreyfingarinnar eða félaga innan hennar verði óbreytt.