151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:17]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, á þskj. 1031, máli 604. Efni frumvarpsins er í stórum dráttum tvíþætt. Annars vegar eru með frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á lögunum í þeim tilgangi að bregðast við athugasemdum Ríkisendurskoðunar sem fram komu í skýrslu stofnunarinnar um endurgreiðslukerfi frá október 2019. Hins vegar er með frumvarpinu lagt til að gildistími laganna verði framlengdur til 31. desember 2025 en að óbreyttu falla lögin úr gildi í lok þessa árs.

Nánar tiltekið snýr meginefni frumvarpsins að eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi varðar það staðfestingu kostnaðaruppgjörs. Í frumvarpinu er lagt til að kostnaðaruppgjör kvikmyndaframleiðenda verði almennt staðfest af endurskoðanda en sé ekki endurskoðað að fullu eins og kveðið er á um nú. Þannig er horfið frá þeirri kröfu að kostnaðaruppgjör verkefna þurfi fulla endurskoðun í skilningi laga um endurskoðendur og staðfesting endurskoðenda látin duga. Hins vegar er lagt til að undanþegin þeim skilyrðum um staðfestingu endurskoðenda séu verkefni þar sem endurgreiðslufjárhæð nemur ekki hærri upphæð en 3 millj. kr. Jafnframt er skýrlega tilgreint að endurskoðandi þurfi ásamt stjórn og framkvæmdastjóra umsækjanda að staðfesta að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við lögin og reglugerð en slík staðfesting af hálfu stjórnar og framkvæmdastjóra dugar ef um lítil verkefni er að ræða. Þessum breytingum er ætlað að efla eftirlit og skýra kröfur til umsækjenda og þá mun í reglugerð jafnframt verða skilgreint nánar hvernig staðfesting endurskoðenda skuli framkvæmd og á hvaða formi slík staðfesting skuli fara fram og fleira.

Í öðru lagi varðar það afmörkun framleiðslukostnaðar. Ein af tillögunum í skýrslu Ríkisendurskoðunar felur í sér að endurskoða þurfi lögin með það að markmiði að skýra betur hvaða kostnaðarliðir falli undir stofn til endurgreiðslu. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að leggja ávallt mat á réttmæti þess kostnaðar sem sótt er um endurgreiðslu á og krefjast sundurliðunar á þeim framleiðslukostnaði sem fellur til. Til að koma til móts við þær ábendingar Ríkisendurskoðunar er lagt til að bætt verði við skilgreiningu í lögin um hvað teljist vera framleiðslukostnaður sem myndað getur stofn til endurgreiðslu og í kjölfarið er tilgreindur sá kostnaður sem ekki telst til framleiðslukostnaðar. Talin er þörf á að nefna sérstaklega ákveðna liði sem ekki teljast til framleiðslukostnaðar þótt þeir geti talist almennur rekstrarkostnaður framleiðslufélags sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Með frumvarpinu er því verið að afmarka skýrt þann kostnað sem myndar stofn til endurgreiðslu. Hugsunin að baki þeirri afmörkun byggist á því að hvatakerfi endurgreiðslna eigi fyrst og fremst að vera bundið við útlagðan kostnað við þá starfsemi eða verkþætti sem falla til við framleiðslu kvikmyndaverks sem fellur undir lögin. Sú afmörkun á framleiðslukostnaði tekur mið af framsetningu í endurgreiðslukerfum Noregs og Tékklands. Einnig var horft til kerfisins í Bretlandi hvað varðar tengingu framleiðslukostnaðarhugtaksins við framleiðsluferli kvikmynda.

Í þriðja lagi varðar frumvarpið framlengingu laganna og endurgreiðslukerfisins. Endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar var sett á laggirnar árið 1999. Um er að ræða skilgreint ríkisaðstoðarkerfi sem fellur undir reglur EES um ríkisaðstoð og var samþykkt á sínum tíma af ESA. Af því leiðir að lögin hafa ávallt verið tímabundin, samanber heiti laganna, lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Það er í samræmi við þá meginreglu að ríkisstyrkjakerfi á Evrópska efnahagssvæðinu skuli endurskoða á a.m.k. fimm ára fresti. Gildistími laganna hefur verið framlengdur fjórum sinnum og núgildandi lög renna að óbreyttu úr gildi í lok þessa árs. Í ljósi umfangs og þýðingar kvikmyndagerðar fyrir íslenskt efnahagslíf er með frumvarpinu er lagt til að gildistími laganna verði framlengdur á ný til ársloka 2025 og áfram verði veittar tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi.

Í fjórða og síðasta lagi er í frumvarpinu kveðið á um aðgengi að kynningarefni. Íslandsstofa hefur í dag það hlutverk að kynna endurgreiðslukerfi fyrir erlendum framleiðendum og rekur í því skyni verkefnið Film in Iceland. Talið er mikilvægt að þeir framleiðendur sem njóta endurgreiðslu á framleiðslukostnaði veiti Íslandsstofu aðgang að kynningarefni sem tengist viðkomandi verkefnum svo mögulegt sé að nýta það í markaðsvinnu Íslandsstofu. Þetta þykir eðlilegt og það þykir eðlilegt í sambærilegum styrkjakerfum erlendis. Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um slíka skyldu sem og gerð krafa um að tilgreint sé í kvikmyndaverkinu að það hafi notið stuðnings á grundvelli laganna.

Með frumvarpinu er sem áður segir verið að sníða nokkra vankanta af núgildandi lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í ljósi ábendinga Ríkisendurskoðunar með það að markmiði að tryggja hagkvæma nýtingu á þeim fjármunum sem veittir eru til endurgreiðslu og efla eftirlit með kerfinu án þess að íþyngja því eða gera það óþarflega flókið. Jafnframt er með frumvarpinu verið að framlengja endurgreiðslukerfið um fjögur ár eins og áður hefur verið gert.

Hið íslenska endurgreiðslukerfi sem nú hefur verið starfrækt í um 20 ár er almennt talið alþjóðlega samkeppnishæft, einfalt og skilvirkt, í raun mun einfaldara og skilvirkara en sambærileg erlend ríkisaðstoðarkerfi. Mikil ásókn er í endurgreiðslukerfið og það styður þessa staðhæfingu. Kvikmyndaiðnaður á Íslandi hefur vaxið undanfarin ár og er orðinn mikilvæg stoð í okkar efnahagslífi með margvíslegum jákvæðum hliðaráhrifum, ekki síst hvað varðar kynningu á landinu. Ég tel mikilvægt að við styðjum áfram og eflum kvikmyndagerð í landinu eins og við höfum gert og séum vakandi um þróun mála í kringum okkur. Á sama tíma þurfum við að meta vel með hvaða hætti sá ríkisstuðningur er og hver heildaráhrif af slíku stuðningskerfi eru. Auðvitað eigum við mjög mikil óinnleyst tækifæri þegar kemur að kvikmyndaiðnaði hér á landi. Með nýjum stúdíóum er til að mynda hægt að taka upp stærri hluta verkefna hér. Þá er eftir öll eftirvinnsla, sem er nánast sjálfstæður iðnaður, þannig að við eigum mjög mikið inni. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að svona kerfi skipti máli og við finnum það að við komumst á kortið með því að vera með slíkt, en kerfi er ekki það sama og kerfi. Það skiptir máli að það sé samkeppnishæft, það sé skilvirkt, það sé ljóst hverjar leikreglurnar eru og að við séum á hverjum tíma viss um að það sé að skila okkur meiru í heildarumsvifum og það sé þar af leiðandi jákvætt fyrir landið allt að við séum með slíkt kerfi.

Með það að leiðarljósi skipaði ég nýlega starfshóp á vegum ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að meta núverandi endurgreiðslukerfi í samræmi við tillögur í kvikmyndastefnu fyrir Ísland frá október 2020. Starfshópurinn hefur þegar hafið störf en gert er ráð fyrir að hann skili tillögum sínum síðar á þessu ári og ég bind einfaldlega miklar vonir við þá vinnu og þau atriði sem þar eru tekin sérstaklega til skoðunar.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.