tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.
Forseti. Það kemur hæstv. ráðherra væntanlega ekkert stórkostlega á óvart að ég komi hingað upp þegar við tökum fyrir þetta tiltekna frumvarp. Í greinargerð segir, með leyfi forseta: „Lögin fela í sér ríkisaðstoðarkerfi, en öll slík lög ber að endurskoða reglulega með tilliti til nauðsynjar og áhrifa.“
Ég ætla að fara aðeins betur í greinargerðina í ræðu minni hér á eftir en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að núna er þetta frumvarp komið fram sem er mikilvægt. Það þarf að framlengja þetta kerfi. Upphaflega voru lögin, sem þetta mál er framlenging á, sett til bráðabirgða en þau reyndust svo vel að þeim hefur verið haldið áfram. Fyrir ári síðan skall á heimsfaraldur Covid og við misstum stærsta atvinnuveg þjóðarinnar á svipstundu, ferðamennskuna. Nú er hæstv. ráðherra titlaður nýsköpunar-, ferðamála- og iðnaðarráðherra, ég vona að ég fari með þetta í réttri röð, virðulegi forseti.
(Forseti (BN): Þetta var röng röð.)
Ég held að allir viti hvað ég eigi við, dýrmætar sekúndur hér á klukkunni hægra megin í ræðustól. En nú heyrir ferðaþjónustan undir hennar ráðuneyti. Önnur lönd, til að mynda Kanaríeyjar, Írland, fóru strax í það að hækka endurgreiðsluprósentuna fyrir kvikmyndagerð- og framleiðslu í þeim tilgangi að koma til móts við tekjutap þessara ríkja sem varð vegna Covid og það bar mjög góðan árangur. Þessi lönd eru að taka af okkur verkefni í þessum töluðu orðum. Ég vil spyrja ráðherra: Hvers vegna var þessi ákvörðun ekki tekin hérlendis?