151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:26]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að koma með mitt besta ráð sem er að muna skammstöfunina FIN, það hefur hjálpað mörgum sem fara í kleinu þegar þeir þurfa að bera fram fjögur nöfn og þrjá titla. En það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru vissulega lönd í kringum okkur sem eru með hærra endurgreiðsluhlutfall og það er alltaf spurning hversu langt við viljum ganga í þeim efnum. Það sem mér finnst skipta mestu máli er hvort kerfið okkar er gott eða ekki. Ég held að fólk sem myndi gjarnan vilja sjá prósentuna hækka sé samt sammála um að kerfið sé gott. Það er skilvirkt, það er einfalt. Það er hægt að setja ofboðslega mikið undir stofnun sem er endurgreiðsluhæft. Það er mismunandi eftir löndum. En við þekkjum líka dæmi þar sem ýmist fylki, t.d. í Bandaríkjunum, eða ákveðin lönd hafa hækkað prósentuna þannig að á endanum var ýmist ekki lengur stuðningur við kerfið eða þá að erfitt var að sýna fram á að það væri áfram til heilla fyrir land og þjóð. Og þá var farið að grafa undan kerfinu, það fellt brott, svo reynt að endurvekja það að nýju og slíkt.

Mér finnst skipta máli að þetta sé gert í réttri röð, að við vöndum mjög til verka og það liggi fyrir greining, sem er partur af vinnu þessa hóps að fara í, til að reyna að festa hendur á því hverju þetta skilar vegna þess að það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ferðaþjónustan í heild sinni nýtur mjög góðs af þessari umfjöllun og athygli. Það er allt að þriðjungur ferðamanna sem hingað koma sem tók ákvörðun um slíkt eftir að hafa séð ýmist kvikmynd, þætti, tónlistarmyndband eða eitthvað efni sem er tekið upp hér. Þannig að samlegðaráhrifin eru vissulega til staðar. Og ég hef líka nefnt það áður að hluti af vinnu hópsins, og er atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að við tökum til skoðunar, er að skoða hvort við séum með einhvern tröppugang, það sé innbyggður hvati í kerfinu. Eftir því sem meiri umsvif eru hér því meira erum við tilbúin að gefa eftir og ívilna vegna þess að þá er alveg ljóst að það helst í hendur hvað við sem samfélag fáum út úr því líka þannig að ef verkefni eyðir umfram ákveðna fjármuni þá hækki mögulega prósentan. Þetta er hluti af því sem hópurinn er að skoða.