151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:29]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Já, ég held að flestir séu sammála um að kerfið sé gott. En þetta snýst um markmiðið, hvaða markmiði maður sækist eftir út frá tilteknu kerfi. Markmiðið hlýtur að vera að fá sem flest verkefni hingað til lands, stór verkefni þar sem milljarðar koma inn í landið með stórum erlendum verkefnum. Meðan ég er sammála hæstv. ráðherra um að það þurfi að vanda til verks og gera hlutina vel þá er þetta aftur á móti eins og að vera læknir með blæðandi sjúkling með svöðusár, það þarf bara að loka sárinu, það þarf að vinna hratt, hafa hraðar hendur til þess að sjúklingnum blæði ekki út. Ferðaþjónustunni hefur síðastliðið ár blætt út. Ég var ekki beinlínis að tala um, virðulegi forseti, landkynningu ferðaþjónustunnar erlendis út frá þeirri afurð sem kvikmyndagerð er, ég var að tala um að með þessum stóru verkefnum þá kemur hingað fullt af fólki sem vinnur undir öruggum Covid-sóttvarnakringumstæðum, það er passað upp á allt slíkt á setti, á kvikmyndatökustaðnum. Þetta fólk þarf að gista á hótelum. Þetta fólk þarf að nýta sér innlenda ferðaþjónustu, það nýtir sér afþreyingu og ýmiss konar þjónustu, t.d. veitingaþjónustu. Þannig að ég er líka að tala um heildarhagkerfi ferðaþjónustunnar innan lands. Ég gæti farið í tíu andsvör við ráðherra um þetta. En tíminn er að verða búinn.

Hefur farið fram hjá ráðherra fréttaflutningur um Hildi Guðnadóttur og Óskarsverðlaun sem Íslendingar eru tilnefndir til (Forseti hringir.) vegna kvikmyndagerðar? Sér ráðherra fyrir sér að það sé möguleiki á að í meðförum þingsins (Forseti hringir.) geti Alþingi breytt þessu frumvarpi þannig að endurgreiðsluhlutfall fyrir kvikmyndagerð verði 35% til að sjúklingnum hætti að blæða út?