tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Frú forseti. Eitt af því sem þarf að liggja alveg fyrir og snýr að þinginu sem fer með fjárveitingavaldið er að í fjármálaáætlun er til að mynda gert ráð fyrir 900 millj. kr. í endurgreiðslu. Fjárlaganefnd setti rúma 2 milljarða í lok síðasta árs í fjárauka til þess að mæta í raun þeim umsvifum sem voru þá hér á landi. Það sem mér finnst þurfa að liggja alveg fyrir er hvort við erum að tala um réttindakerfi, þ.e. ef verkefnið uppfyllir ákveðin skilyrði þá eigi það einfaldlega rétt á þessari endurgreiðslu, eða hvort við erum að tala um einhvers konar þak, fyrstur kemur, fyrstur fær. Í framkvæmd höfum við haft það þannig að þetta er bara réttindakerfi og það verður til skuldbinding af hálfu ríkisins og svo hefur hún í raun verið leiðrétt. Mér finnst að það þurfi að liggja algerlega fyrir að þetta sé sá skilningur sem hafður er á þessu kerfi áður en við förum að ræða það að stórhækka prósentuna þannig að útgreiðslan verði enn hærri. Það liggur fyrir að í fyrra og í ár og á næstu árum verður fjárhæðin hærri en 900 millj. kr., miðað við umsvifin sem við horfum framan í núna. Það var metár í fyrra í umsvifum og vöxturinn er gríðarlega mikill og tækifærin eru til staðar. Það er alveg rétt að ferðaþjónustan líður mjög fyrir heimsfaraldur og ákvarðanir sem teknar hafa verið með tilliti til þess. En ef við værum að ráðstafa fjármunum í það blæðandi sár þá veit ég ekki hvort við myndum ráðstafa þessum fjármunum í það.
Í mínum huga er kjarni málsins þessi: Erum við þeirrar skoðunar að þetta kerfi sé gott og það skili okkur meiru með því að hafa það á, og það auki umsvifin þannig, það séu jákvæð heildarumsvif sem skipti máli og við höfum endurgreiðslukerfið þannig? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé. En mér finnst að það þurfi að liggja mjög skýrt fyrir hvar þau mörk eru af því að einhvers staðar hljóta þau að vera. Ef við ætlum að endurgreiða helming til baka (Forseti hringir.) þá er einhver þröskuldur á því hvenær það fer að skipta máli. Ég veit ekki til að gerð hafi verið úttekt á því hvar þau mörk til að mynda liggja. (Forseti hringir.) Og aftur, þetta er hluti af því sem hópurinn og nefndin er að skoða.