151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:34]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Á meðan ég fagna því að búið sé að skipa starfshóp sem ætlar að fara í þessi mál þá vil ég ítreka að málflutningur ráðherra um að það sé svo ofsalega loðið og ofsalega erfitt að komast að niðurstöðu um hvaða tilteknu tölu, prósentu, eigi að fara í er eitthvað sem ég er í grundvallaratriðum algjörlega ósammála. Það þarf ekki fagmann til að sjá að til að vera samkeppnishæf þarf að veita viðlíka þjónustu eða hafa viðlíka skilmála. Við erum ekki að gera það núna, ekki með 25% endurgreiðslu vegna kvikmyndaframleiðslu. Og af því við erum ekki að gera það þá missum við stóru, gríðarlega stóru milljarða verkefnin, kvikmyndagerðarverkefnin, til nágrannalandanna. Við erum að missa þau til Írlands sem gekk fram, lokaði sjúklingnum áður en honum blæddi, hækkaði endurgreiðsluna. Þjóð sem var nógu hyggin til að gera það er núna að taka frá okkur verkefni vegna þess að við erum ekki samkeppnishæf. Við fáum brot af þeim verkefnum sem við gætum verið að fá. Ég get tekið nokkur dæmi. Það er t.d. kvikmynd sem hefur vakið gríðarlega athygli á heimsvísu og lag úr henni tilnefnt til Óskarsverðlauna. Í þeirri kvikmynd er Ísland sögusviðið að miklu leyti en vegna þess að við vorum ekki samkeppnishæf, vegna þess að önnur lönd í kringum okkur eru með hærri endurgreiðsluprósentu, betri umgjörð utan um þetta, Írland að mig minnir í þessu tiltekna tilfelli, var ekki tekið upp á Íslandi þar sem sagan átti að gerast. Þetta er raundæmi og þau eru ótal fleiri, því miður, virðulegi forseti.

Ég skil alveg að það þarf að ráðstafa fjármunum, við erum með fjárlög og við þurfum að vita hvaða krónur fara hvert, þvers og kruss. En það er bara svo að þarna kemur fyrst inn peningur. Fjármunirnir flæða inn í landið, um hagkerfið, streyma hér um og svo er mun seinna, við lok framkvæmdarinnar, þegar afurðin er tilbúin, að nokkuð ströngum uppfylltum skilyrðum, endurgreiddur hluti af þeim fjármunum sem komu inn í landið. Þetta gerist mun síðar og stundum ekki vegna þess að stundum eru skilyrðin ekki uppfyllt. Og hvað gerist á öllum þeim tíma? Á einni svipstundu skapast störf, hundruð og stundum þúsundir starfa í kringum eina kvikmynd, oft störf sem eru til lengri tíma, í dágóðan tíma, mánuði, kannski ár. Eitt leiðir af öðru, orðspori íslensks mannauðs og fólks sem vinnur við greinina er komið á framfæri í útlöndum, bæði í gegnum afurðina og í gegnum tengsl sem myndast í þessu samstarfi milli landa. Ekki nóg með það, við erum ekki að tala um sérstaklega einhæf störf eða að bara sé verið að setja eitthvað til einnar afmarkaðar greinar þar sem mjög einsleitur hópur vinnur. Nei, við erum að tala um gríðarlega fjölbreytta flóru af störfum sem verða til við svona verkefni.

Ég legg áherslu í ræðu minni, forseti, á erlend verkefni en sama gildir um íslensk verkefni. Þau eru líka gríðarlega mikilvæg, þannig að það sé alveg á hreinu að það halli ekki á þau í málflutningi mínum hér.

Ég hef ekki enn sem komið er fengið nein rök, nein haldbær gagnleg rök fyrir því hvers vegna ekki er búið að hækka endurgreiðsluna fyrir utan að þau vita ekki alveg hver talan eigi að vera. Það er ekkert erfitt að svara því, virðulegi forseti, hver talan ætti að vera. Hún á a.m.k. ekki að vera 25%, það skal ég fullyrða. Ég fullyrði að á meðan blæðir okkur út, við missum af verkefnum, fleiri verkefnum þar sem Íslandi er sögusviðið, til nágrannalandanna.

Hæstv. ráðherra kom inn á flotta, nýja og spennandi kvikmyndastefnu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta er metnaðarfull stefna og hún er flott og hún er vel unnin en ein og sér er hún ekki nóg. Stefnan þarf á því að halda að það sé raunverulegur pólitískur áhugi, efnahagslegur pólitískur áhugi fyrir því að gera Ísland að aðlaðandi stað fyrir erlend kvikmyndaverkefni, fyrir erlenda framleiðendur. Það er ekki nóg eitt og sér þetta flotta plagg hæstv. ráðherra. Auk stefnunnar er núna búið að gefa út að það verður nám á háskólastigi í Listaháskóla Íslands. Þar eru gríðarleg menntatækifæri í boði fyrir ungt fólk sem leitar í aðrar tegundir menntunar en bóklegt nám. Mikið væri ánægjulegt og skemmtilegt að þegar þessir árgangar útskrifast svo þá sé hér landslag, aðlaðandi landslag til að taka við þeim, til að taka við nýútskrifuðum, sprenglærðum, flottum innlendum mannauði í kvikmyndagerð, til þess að það gerist ekki sem er að gerast núna, að við missum þann mannauð úr landi til þeirra landa sem þorðu að loka sjúklingnum á meðan honum blæddi. Við erum að missa mannauð, íslenska reynslubolta úr kvikmyndaiðnaðinum, til útlanda, til Kanaríeyja, til Írlands. Þetta er grátlegt. Ég er búin að tönnlast á því og held því áfram.

Virðulegi forseti. Fyrir ári síðan skall á margumræddur heimsfaraldur, Covid-19, og eins og fram hefur komið þá misstum við hina klassísku ferðaþjónustu okkar sem var orðin svo stór og mikilvæg stoð í hagkerfinu. En kvikmyndagerð er iðnaður sem hefur einstaka aðlögunarhæfni og það hefur nefnilega sýnt sig á tímum Covid að framleiðsla getur haldið áfram undir ströngu eftirliti. Ferlar hafa verið þróaðir og prófaðir og öruggt vinnuumhverfi hefur skapast í kringum slíka framleiðslu. Þarna hafa skapast störf og það mikilvægasta fyrir okkur þegar við komum út úr Covid er að hér sé búið að binda þannig um hnútana að atvinnuleysi hér á landi verði ekki 26% mikið lengur. Þarna eru atvinnusköpunartækifæri. Þarna er markaðssókn og landkynning eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Þetta er landkynning án þess að leggja þurfi í beinan kostnað. Í frumvarpinu kemur einmitt fram að réttindi fara til þeirra sem starfa við það að koma Íslandi á framfæri á erlendri grundu. Þau fá þessar afurðir að einhverju leyti, eitthvert kynningarefni í kringum það.

Ég vil leggja áherslu á að þetta er landkynning án þess að leggja þurfi í beinan kostnað í upphafi. Þetta eru gjaldeyristekjur. Og það er, virðulegur forseti, gríðarlega hörð samkeppni í kvikmyndabransanum á alþjóðavettvangi og má oft mjög litlu muna þegar keppst er um hvert verkefnin fara. Til að mynda þarf að standa í útitökum og innitökum og stundum höfum við misst verkefni vegna þess að við erum ekki með almennt kvikmyndaver. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur talað fyrir því að hér ætti að byggja flott og stórt kvikmyndaver, það myndi enn auka líkur okkar. Þetta hefur verið gert. Þetta hefur verið gert í íþróttum, hefur verið gert í fótboltanum. Þá hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að gera vel við íþróttagreinina, byggðir stórir fótboltaleikvangar og þetta nært, pólitískt nært til langs tíma. Það hefur verið langtímahugsun í þeirri grein og hún hefur svo sannarlega skilað sér. Við þekkjum flest árangur íslenska landsliðsins í fótbolta hér um árið og þetta er grein sem vex og dafnar áfram.

Ég ætla að koma aðeins aftur inn á störfin við kvikmyndagerð. Það eru þarna tækifæri og störf alveg frá því að vera kannski það fyrsta sem fólki dettur í hug; leiklist, leikarar. Það er tónlist. Þetta er líka innspýting í tónlistargeirann. Þetta vinnur allt saman. Við sáum það fyrir norðan að Sinfóníuhljómsveitin hefur verið að taka upp tónlist fyrir erlend verkefni. Þetta er útflutningsvara sem hægt er að flytja út í gegnum internetið. Það þarf engin skip, eða flugvélar eða þessa klassísku frakt endilega. Þetta er útflutningsgrein.

Hæstv. ráðherra kom líka inn á eftirvinnslu og að það væru tækifæri í henni og það er heldur betur satt og rétt. Eftirvinnsla kvikmyndagerðar er út af fyrir sig risastór iðnaður sem heldur áfram að þróast. Við erum að sjá þrívíddarþróun og alls konar tækni þar sem allt springur í loft upp án þess að allt þurfi í raun að springa í loft upp. Þetta eru svo borðleggjandi tækifæri fyrir land og þjóð, fyrir okkur til að ná okkur út úr þeirri kreppu sem nú liggur, því miður, eins og mara yfir landi og þjóð, atvinnuleysiskreppu. Við erum að tala um mjög alvarlegan hlut. Við erum að tala um atvinnusköpun á tímum þar sem atvinnuleysi er í sögulegum hæðum. Það gengur ekki, virðulegi forseti, að mínu mati að ráðherrar séu að flækjast fyrir sjálfum sér í því hvort talan eigi að vera þessi eða hin eða að einhver annar ráðherra fái þetta ekki til að ganga upp í excel-skjali alveg strax þótt það sé lítið mál að sýna fram á öll þau hagrænu áhrif sem þetta hefur. Þetta er lítið mál, einfalt mál að þræða þetta allt saman og gera þetta.

Frú forseti. Ég er bjartsýn að eðlisfari, vongóð, og trúi og treysti á það besta í fólki og hef trú á Alþingi og störfunum hér. Nú er þetta frumvarp komið í gegnum 1. umr. og fer til nefndar. Ég vona að hæstv. Alþingi beri gæfu í meðförum þingsins til að breyta þessari tölu, þessari 25% endurgreiðslutölu, í a.m.k. 35% og að það þurfi ekki að bíða eftir niðurstöðum starfshóps sem kemur eftir dúk og disk. Það sé bara tekin pólitísk ákvörðun um að vinna saman að því að skapa dýnamískt umhverfi fyrir kvikmyndagerð á Íslandi.