tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um okkar hlutverk og það skiptir miklu máli að við séum með dýnamískt umhverfi fyrir þessa atvinnugrein sem á að mínu viti bjarta framtíð. Framboð á efni hefur auðvitað aukist gríðarlega og við getum staðsett okkur vel í því.
Mig langar að spyrja í kjölfar ræðu hv. þingmanns hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að því meira sem er endurgreitt því betra, það sé samasemmerki á milli þess og hversu gott kerfið er. Hv. þingmaður nefndi að við ættum að keppa við bestu kerfin. Kanaríeyjar eru með 50% endurgreiðslu þannig að ef við ætlum að keppa við bestu kerfin þá værum við væntanlega að huga að því að vera með 50% endurgreiðslu. Svo er spurning hvernig framkvæmdin er á kerfinu og hver skilvirkni þess er, sem ég leyfi mér að halda fram að sé miklum mun betri hér en þar. Mér fannst að hluta í ræðu hv. þingmanns því vera haldið fram að íslenskum kvikmyndaiðnaði blæddi stórkostlega. Ég er ekki sammála því þrátt fyrir að ég hafi líka heyrt dæmi um verkefni sem eru í öðrum löndum heldur en hér og því sé haldið fram að það sé vegna þess að kerfið hér nái ekki að grípa þau. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða greining liggi að baki þessum 35% og hvort sú greining liggi fyrir sem gæti hjálpað til við slíka ákvörðun.
Í kvikmyndastefnu er talað um að við þurfum að tryggja samkeppnishæfni kerfisins og taka það út hvernig það er gert. Það er í raun nákvæmlega það sem við erum að gera með þessum hópi. Í samkeppnishæfni kerfisins hér eru líka ýmsir aðrir þættir. Það liggur fyrir að launakostnaður á Íslandi er t.d. töluvert hærri þannig að það væri líka hægt að segja að til að auka samkeppnishæfni greinarinnar þyrfti launakostnaður að vera miklum mun lægri. Ég er ekki viss um að það yrði mikil sátt um það. (Forseti hringir.) En það eru auðvitað margir þættir sem hafa áhrif á samkeppnishæfni kerfisins. Það að keppa við bestu kerfin hverju sinni, með leyfi forseta, á ensku „race to the bottom“, (Forseti hringir.) — ég veit ekki hvort það er besta leiðin til að tryggja sjálfbærni kerfisins.