tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir andsvarið. Hvort talan eigi að vera 50% eða 35% og samkeppnishæfni. Nei, ég ætla að fara aðeins til baka. Hæstv. ráðherra spurði mig hvort að ég teldi að það þyrfti að keppa við hæstu tölurnar hverju sinni til að vera samkeppnishæf. Nei, að sjálfsögðu ekki, ég tel ekki að svo sé. Ég tel hins vegar að miðað við nærumhverfið sem við erum í samkeppni við þurfi þessi tala að vera a.m.k. á svipuðum stað. Hitt er auðvitað pólitísk ákvörðun. Hæstv. ráðherra talaði um 50%, að sum lönd hafi ákveðið að talan eigi að vera 50%. Það var pólitísk ákvörðun sem var tekin af ákveðnu hugrekki í upphafi faraldursins til þess að ná forskoti í samkeppni, til þess að segja: Hérna erum við og við ætlum að fá þennan iðnað til okkar. Það tókst og þau búa að því og munu gera það líka löngu eftir að Covid hefur riðið yfir. Að baki tölunni 35% liggur að baki, að mér best vitandi, viðmið við þau lönd þar sem aðrir hlutir endurgreiðslukerfisins eru svipaðir, en þessi tala, 25%, sé mismunurinn á milli kerfanna og þess vegna er þessari tilteknu tölu slegið fram. Þetta sé sú breyta sem þurfi að laga til þess að við verðum samkeppnishæf út frá viðlíka endurgreiðslukerfum. — Tíminn er búinn en ég hef seinna andsvar.
(Forseti (BHar): Andsvörum er reyndar lokið, hæstv. ráðherra hyggst ekki nýta sér rétt til seinna andsvars.)