151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Af hverju málið var sett á dagskrá, hvernig það gerðist og með hvaða hætti er auðvitað mál forsætisnefndar og forseta. Ég geri ráð fyrir því að þegar um er að ræða flug til landsins sé sennilega mjög fljótlega von á fyrstu erlendu vélunum hingað til lands. Með frumvarpinu er verið að taka bráðabirgðaákvæðið sem er í nýju loftferðalögunum, þ.e. frumvarpinu sem ekki er búið að afgreiða, færa það hingað og leita samþykkis við því til bráðabirgða vegna þess að við vitum að stóri lagabálkurinn um loftferðir, sá nýi, verður ekki afgreiddur með þeim hraða sem æskilegt er ef við ætlum á annað borð opna landið að þessu leyti. Það hlýtur þá að skýra af hverju er verið að taka þetta á dagskrá með tilteknum hraða en nákvæmlega hvernig það er gert, það er utan við mitt starfssvið. Tilgangurinn með þessu er að lögfesta og breyta skilyrðum aðgerða á landamærum sem þegar hafa verið leyfðar. Fólk utan Schengen hefur getað komið hingað í svokölluðum lögmætum eða brýnum tilgangi, vegna vinnu, veiks ættingja eða einhvers slíks. Hér er bara verið að víkka — eða það er ekkert bara, þetta er stórt skref — það er verið að víkka þetta út þannig að þetta gildi almennt um fólk með sams konar vottorð og það fólk hefur vísað fram.

Varðandi sóttvarnalækni sit ég ekki í ríkisstjórn og veit ekki um samtöl hæstv. heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknis en ég veit að honum ber að leggja fram tillögur. Ég veit líka að framkvæmdarvaldið hefur ákveðinn rétt til að fara ekki eftir öllum þeim tillögum sem sóttvarnalæknir leggur fram því að það er ekki átómatískt samband á milli, að hæstv. ráðherra sé einungis heimilt að samþykkja þær tillögur sem koma beint frá sóttvarnalækni.