151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:31]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Það vakna frekar margar spurningar þegar ég lít yfir þetta frumvarp til laga og vangaveltur einnig. Fyrir stuttu var ákveðið í flýti að farþegar sem kæmu hingað til lands ættu að framvísa svokölluðu neikvæðu PCR-prófi um að þau væru ekki með Covid. Hæstv. heilbrigðisráðherra var spurður um það hér í pontu hvort það uppfyllti almennt reglu um meðalhóf og hvort það væri lagaleg skylda að láta flugfélög sinna því að athuga hvort einhverjir væru með slík vottorð. Heilbrigðisráðherra virtist ekki alveg vera með svörin á hreinu. Þess vegna finnst mér mjög skrýtið að þetta frumvarp komi hér fram allt í einu. Ástæðan fyrir því er að það er svolítið hættulegt — ég skil að Covid-19 er mjög hættulegur sjúkdómur og farsótt, en mér finnst leiðinlegt ef það er verið að nýta slíkar farsóttir og slíka sjúkdóma til að setja lög í skjóli einhvers konar ótta eða í skjóli þess að það þurfi að passa upp á að ferðamenn komist hingað til landsins í sumar til að verða við einhverjum beiðnum frá ferðamannaiðnaðinum.

Ég tel þetta upp af því að ég velti því fyrir mér hver tilgangurinn og markmiðið með þessu frumvarpi eigi að vera og hvernig það þjónar einstaklingum sem búa hér á Íslandi. Eins og bent var á áðan þá erum við sem þjóð á frekar viðkvæmum stað hvað varðar sóttvarnaaðgerðir og enn þá er hætta á að það komi önnur bylgja. Ég velti því líka fyrir mér hvort frumvarpið uppfylli markmið sitt því að það er talað um að tekið verði við vottorðum sem staðfesti neikvæða niðurstöðu prófs. Það felur náttúrlega í sér aukinn kostnað fyrir þau sem koma hingað til lands og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um þá íslensku ríkisborgara sem eru búsettir erlendis og koma hingað til að heimsækja vini og fjölskyldu. Fjögurra manna fjölskylda þarf að fá fjögur svona próf sem mér skilst að geti kostað um 100 evrur, sem er um 15.000 kr. íslenskar, og þau þurfi að gera það sama þegar þau fara til baka. Þannig að þetta er aukinn kostnaður og ég velti fyrir mér hvernig unnt er að gæta jafnræðis og hvort það sé í samræmi við 66. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að það megi ekki meina íslenskum ríkisborgurum að koma hingað til lands. Auk þess hef ég heyrt að t.d. í Bandaríkjunum geti tekið langan tíma að fá neikvæða niðurstöðu úr svona prófum. Þær geta verið orðnar allt að tíu daga gamlar þegar þær koma loksins þannig að það þjónar ekki markmiðinu að biðja um þannig próf, það segir okkur voðalega lítið ef sú er raunin. Það er eflaust kannski ómögulegt að fá slík próf með 72 tíma fyrirvara ef þetta á að vera í samhengi við breytinguna sem var gerð í reglugerð um daginn. Mér finnst líka skjóta skökku við að leggja slíkar skyldur á flugrekendur yfir höfuð. Þetta er svipað og þegar hingað kemur fólk á fölsuðum skilríkjum. Þá er sett sú skylda á flugrekendur að vera búnir að tryggja að fólk sé með ófölsuð skilríki.

Ég velti alltaf fyrir mér hvort lög séu sett fram á þann hátt að það sé í rauninni mögulegt að fylgja þeim. Ég velti því fyrir mér hvort þetta frumvarp þjóni markmiði sínu, hvort það sé einungis til að friðþægja ferðaþjónustugeirann og hvort tekið hafi verið tillit til þeirra umkvartana sem komu fram um daginn, hvort þetta myndi hamla íslenskum ríkisborgurum að koma til heimalands síns. Það er það sem ég er að hugsa varðandi þetta frumvarp.