loftferðir.
Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við að fjalla um þetta tiltekna frumvarp í dag. Það kemur satt best að segja á óvart og er ekki með miklum fyrirvara, reyndar nánast engum. Hér er verið að leggja fram frumvarp sem er tekið að miklu leyti úr ákvæði til bráðabirgða í frumvarpi sem einnig hefur verið lagt fram, um loftferðir, mál sem hefur reyndar verið umdeilt í umræðunni upp á síðkastið af allt öðrum ástæðum sem koma þessu tiltekna máli ekki við.
Áhyggjurnar sem ég hef af þessu frumvarpi eru vegna b- og c-liðar 1. gr. frumvarpsins. B-liður fjallar um það að íslensk yfirvöld, ráðherra, geti sett reglugerð sem skyldi flugrekanda eða umráðanda loftfars til að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu samkvæmt a-lið. C-liður fjallar um skyldu til að flytja farþega til baka til brottfararstaðar geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu samkvæmt a-lið við komu til landsins. Nú átta ég mig mætavel á tilgangi greinarinnar og aðstæðunum en það er nú þannig að við búum við lög nr. 33/1944, betur þekkt sem stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar er ákvæði, nánar tiltekið 2. mgr. 66. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
„Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins …“
Óháð því hvort ég telji frumvarpið heppilegt í aðstæðunum sem eru nú til staðar, aðstæðum sem eru alvarlegar og ég geri á engan hátt lítið úr enda þolandi Covid-19 sjúkdómsins sjálfur ásamt nokkrum fjölskyldumeðlimum mínum, þá er það skylda okkar að halda stjórnarskrána og ekki nóg með það, heldur er það skylda okkar að tryggja að lögin sem við setjum séu í samræmi við stjórnarskrá. Það eru áhyggjurnar sem ég hef. Ef hægt er að ganga úr skugga um það með fullri vissu að þetta ákvæði standist stjórnarskrá þá get ég stutt þetta mál en ég get ekki stutt það með góðri samvisku, alla vega ekki í atkvæðagreiðslu, fyrr en það er komið á hreint.
Ég sé ekki að í greinargerð þessa frumvarps sé komið til móts við þetta sjónarmið, eitthvað sem ég skil mætavel, enda málið nýtilkomið og kannski ekki unnist tími til þess, en hins vegar vekur líka áhyggjur mínar að málið sé lagt fram af nefnd sem mér er enn þá óljóst hvort muni fjalla um þennan vinkil málsins áður en til atkvæðagreiðslu kemur. Nú fæ ég reyndar þau netskilaboð að hér verði ekki frekari atkvæðagreiðslur í dag. Ég verð að viðurkenna að það huggar mig ansi mikið en ég hvet nefndina til að kanna þennan lið mjög gaumgæfilega og tryggja að við flýtum okkur ekki um of.