151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir tilraunina til að hugga mig, en ég verð að viðurkenna að þessi tiltekni málflutningur þykir mér ekki einn og sér vera sannfærandi þótt vel megi vera að allt sem hv. þingmaður sagði sé satt og rétt. Vandi minn er sá að hér þarf ég sem sjálfstæður þingmaður að fullvissa mig um að málið standist stjórnarskrá til þess að ég geti leyft mér að styðja það. Ef hv. þingmaður er kominn lengra í þeirri skoðun er það gott og blessað og geri ég engar athugasemdir við það.

Hitt er síðan að ég hef ekki áhyggjur af landamærunum á Íslandi. Ég hef áhyggjur af því að það standist ekki stjórnarskrá að íslensk yfirvöld neyði flugfélög erlendis til að snúa við íslenskum ríkisborgara sem þar er staddur á þeim tíma. Mögulega eru til einhverjar lagaskýringar sem myndu útskýra að það stæðist stjórnarskrá, en það er mér alla vega á engan hátt ljóst sem stendur. Og eiginlega stend ég í þeirri trú að slíkt fyrirkomulag myndi ekki standast stjórnarskrá miðað við málskilning minn þegar ég les þetta ákvæði í stjórnarskránni og í málinu. Sömuleiðis þá ber málið brátt að þannig að ég viðurkenni það hér, eins og ég hóf ræðu mína á að nefna, að ég hef ekki haft tækifæri til að komast til botns í öllum spurningum í málinu og er það ástæðan fyrir efasemdum mínum á þessum tímapunkti. Ég held að það hafi ekki verið fleiri atriði í andsvari hv. þingmanns sem ég sé ástæðu til þess að bregðast við eins og er, en hv. þingmaður fær þá tækifæri til að ítreka það.